Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hætta að selja Ben & Jerry's ís í landtökubyggðum

20.07.2021 - 14:41
Ben & Jerry's ís
 Mynd: Mike Mozart - Flickr
Ísframleiðandinn Ben & Jerry's ætlar að hætta að selja ísinn sinn á landtökubyggðum Ísraela á Vesturbakkanum og í austurhluta Jerúsalem. Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, hótar hörðum viðbrögðum vegna þessarar ákvörðunar ísrisans.

Tilkynnt var í gær að Ben & Jerry's hefði tilkynnt framleiðanda og dreifingaraðila íssins í Ísrael að samningur, sem rennur út 2022, verði ekki endurnýjaður. Í tilkynningunni segir að ísinn verði áfram seldur í Ísrael, bara ekki í landtökubyggðunum. Þá hefur Ben & Jerry's lýst því yfir að íssala á svæðunum sem Palestínumenn vilji ná stjórn yfir sé ekki í samræmi við gildi fyrirtækisins.

Ben & Jerry's hefur verið í eigu breska fyrirtækisins Unilever frá árinu 2000. Höfuðstöðvarnar eru í Vermont í Bandaríkjunum. Bennett hefur sagt Alan Jope, forstjóra Unilever að ísraelska ríkið ætli að bregðast við ákvörðuninni af hörku. Þá segir Bennett að ákvörðunin sé greinilega and-ísraelsk og eigi eftir að hafa alvarlegar afleiðingar. Hart verði brugðist við öllum þvingunaraðgerðum gegn Ísraelum.

Benjamin Netanyahu, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, hefur einnig blandað sér í umræðuna og segir á Twitter að nú viti Ísraelar hvaða ís þeir eigi ekki að kaupa.

Utanríkisráðherra Ísraels, Yair Lapid, segir að ákvörðunin sé skammarleg uppgjöf fyrir gyðingahatri. Þá hefur Orna Barb, efnahagsráðherra Ísraels, birt myndband á TikTok þar sem hún hendir Ben & Jerry's ís í ruslið.

Í frétt Guardian af málinu segir að Azi Zinger, framkvæmdastjóri dreifingaraðila Ben & Jerry's í Ísrael, hafi sagt í samtali við ísraelsku sjónvarpsstöðina Kan í dag að Unilever, eigandi Ben & Jerry's, hafi lengi þrýst á hann að hætta dreifingu íssins á landtökusvæðunum en hann hafi ekki orðið við því þar sem slíkt samræmist ekki lögum í Ísrael.

Þá segir í frétt Guardian að Ben & Jerry's sé eitt stærsta fyrirtækið sem lýsi á þennan hátt yfir andstöðu við landtökubyggðir á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem. Ísraelar yfirtóku svæðin árið 1967. Byggðirnar eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum.

Talið er að um 700.000 Ísraelar búi í landtökubyggðunum, um 500.000 á Vesturbakkanum og um 200.000 í Austur-Jerúsalem. Stjórnvöld í Ísrael líta á Jerúsalem sem höfuðborg sína. Palestínumenn vilja að í framtíðinni verði hún þeirra höfuðborg. 

Ben & Jerry´s var stofnað í Bandaríkjunum 1978 þegar vinirnir Ben og Jerry opnuðu ísbúð á bensínstöð í Burlington í Vermont. Það er eitt stærsta ísframleiðslufyrirtæki í heimi og eru vörur þess seldar víða um heim. 

Fréttin hefur verið  uppfærð.