Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gylfi sagður vera leikmaðurinn sem var handtekinn

Mynd með færslu
 Mynd: EPA-EFE - PA POOL

Gylfi sagður vera leikmaðurinn sem var handtekinn

20.07.2021 - 10:20
Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er sagður hafa verið handtekinn á föstudagskvöldið grunaður um kynferðisafbrot gegn barni. Þetta herma heimildir mbl.is og nokkurra fjölmiðla utan Bretlands. Samkvæmt heimildum RÚV er mikil umræða um málið innan forystu KSÍ og talið líklegt að fundað verði síðar í dag vegna þess. Af heimildum fréttastofu að dæma er málið litið alvarlegum augum innan sambandsins.

Breskir fjölmiðlar sögðu frá því í gærkvöld að 31 árs leikmaður í ensku úrvalsdeildinni, sem hefði leikið stórt hlutverk með landsliði sínu, hefði verið handtekinn. Bresku miðlarnir nafngreindu manninn ekki og vísuðu til laga þar í landi um nafnbirtingar.

Mikil umræða spratt á samfélagsmiðlum um helgina þar sem því var haldið fram að Gylfi hefði verið handtekinn. Þá hafði ekkert staðfest komið fram í fjölmiðlum. Það var svo í gærkvöld sem breskir fjölmiðlar fjölluðu fyrst um málið án þess þó að nafngreina nokkurn. Síðar um kvöldið staðfesti Everton að leikmaður liðins sætti lögreglurannsókn og hefði verið vikið frá störfum á meðan rannsókn stæði yfir.

Í morgun var Gylfi nafngreindur í nokkrum erlendum miðlum vegna málsins og mbl.is sagðist hafa heimildir fyrir því að um Gylfa væri að ræða, fyrst íslenskra fjölmiðla. 

Hvorki lögregla né Everton hefur staðfest að um Gylfa Þór sé að ræða.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Everton staðfestir lögreglurannsókn á leikmanni

Fótbolti

Handtekinn grunaður um kynferðisafbrot gegn barni