Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eitt elsta eintak knattspyrnureglnanna selt á uppboði

Mynd með færslu
 Mynd: Sotheby

Eitt elsta eintak knattspyrnureglnanna selt á uppboði

20.07.2021 - 20:35
Eitt elsta eintak af knattspyrnureglunum var selt á uppboði hjá uppboðshúsinu Sotheby á Englandi í dag. 

Eitt elsta varðveitta eintak af knattspyrnureglunum var selt á uppboði hjá uppboðshúsinu Sotheby á Englandi í dag. 

Eintakið seldist fyrir 56.700 pund, eða sem nemur tæpum tíu milljónum króna. Reglurnar eru prentaðar á bækling sem fannst í gamalli úrklippubók.

Þær voru skrifaðar eftir afdrifaríka fundaröð á vegum knattspyrnuliðsins Sheffield F.C. árið 1859 þar sem tilraunir voru gerðar til að samræma reglur leiksins. Meðal reglna sem litu dagsins ljós hjá Sheffield-liðinu voru óbein aukaspyrna, hornspyrna og sú nýbreytni að setja þverslá á mörkin.

Aðeins eitt annað eintak af þessum reglum hefur varðveist, en það tilheyrði safni Sheffield-liðsins, sem selt var í heild sinni fyrir 881.000 pund, um 150 milljónir króna, í júlí 2011.

Sheffield F.C. var stofnað árið 1857, og er viðurkennt af bæði Enska knattspyrnusambandinu og FIFA sem elsta knattspyrnufélag heims. Liðinu má ekki rugla við nágrannaliðið Sheffield United, sem leikur í næstefstu deild.

Sheffield F.C. leikur hins vegar í Norðurdeildinni, sjöundu efstu deild á Englandi.