Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonbrigði segir formaður SAF

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir hertar aðgerðir á landamærum vera mikil vonbrigði og ekki í samræmi við þá áætlun sem stjórnvöld hafi sett upp. Hún segir sárgrætilegt ef farið yrði í hertar aðgerðir innanlands.

Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að herða aðgerðir á landamærum og taka nýjar reglur gildi eftir viku.

Breytingin felst í því að bólusettum ferðamönnum verður gert að skila neikvæðri niðurstöðu úr sýnatöku áður en haldið er upp í flugvél til landsins. Prófið má vera hvort heldur PCR-próf eða hraðpróf.

„Það eru í fyrsta lagi mikil vonbrigði með að við skulum vera komin á þennan stað að við þurfum að grípa til sóttvarnaaðgerða á þessum tímapunkti,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Þá segir hún ákvörðunina ekki vera í samræmi við þá áætlun stjórnvalda að samræmi væri milli árangurs í bólusetningum innanlands og sóttvarnaaðgerðum. Alls hafa 85,3% fullorðinna Íslendinga verið fullbólusett og 4,9% til viðbótar fengið fyrri skammt af tveimur.

Spurð hvort aðgerðirnar séu ekki frekar mildar, viðurkennir Bjarnheiður að þær hefðu getað verið harkalegri. Þá sé jákvætt að hraðpróf verði tekin gild. Slík próf má víða nálgast með auðveldum hætti og niðurstaða þeirra liggur fyrir á um 15-30 mínútum, á meðan sólarhring eða lengur getur tekið að fá niðurstöðu PCR-prófs. „Við vonum að þetta hafi ekki mikil áhrif á ferðavilja til landsins.“

Stór hluti landsmanna er nú þegar bólusettur. En óttast ferðaþjónustan að þrátt fyrir það verði gripið til hertari aðgerða innanlands með tilheyrandi afleiðingum?

„Eins og staðan er núna er það víst ekki útilokað, en það yrði náttúrlega mjög alvarlegt og hefði mjög slæmar afleiðingar á greinina,“ segir Bjarnheiður.

Hún segir fjölgun ferðamanna síðustu vikur hafa verið kærkomna fyrir ferðaþjónustuna og því yrði sárgrætilegt ef hægjast myndi á vegna nýrra takmarkana.