Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Steðji skorar á Alþingi að hysja upp um sig

19.07.2021 - 11:16
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Brugghúsi Steðja hefur enn ekki borist stefna vegna vefverslunar sinnar með bjór sem þar er bruggaður, þó svo ÁTVR hafi tilkynnt sýslumanninum á Vesturlandi um meint lögbrot Brugghúss Steðja ehf. með smásölu áfengis í vefverslunum.

Þetta staðfestir Dagbjartur Arilíusson, framkvæmdastjóri brugghússins Steðja, í samtali við fréttastofu RÚV. Brugghús Steðja reið á vaðið í október 2020 og opnaði vefverslun þar sem boðið var upp á að fá bjórinn sendan heim að dyrum. Þá þegar hafði Bjórland starfrækt net­verslun með heim­sendingu á bjór frá felstum helstu hand­verks­brugg­húsum landsins. Þessir aðilar hafa því starfrækt netverslun með áfengi talsvert lengur en Sante Wines.

Brugghúsið tilkynnt til sýslumanns

Þann 8. Júní síðastliðinn tilkynnti ÁTVR sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og sýslumanninum á Vesturlandi um meint lögbrot Bjórlands ehf., Brugghúss Steðja ehf. og Sante ehf. með smásölu áfengis í vefverslunum. Auk þess hefur ÁTVR nú kært Sante fyrir meint skattsvik.

Býst ekki við frekari afskiptum

Aðspurður segir Dagbjartur að honum hafi ekki borist nein stefna né hafi hið opinbera haft nein afskipti af honum í kjölfar síðustu tilkynningar frá ÁTVR til lögregluyfirvalda. Hann hafi reyndar tvívegis farið í skýrslutöku hjá lögreglustjóranum á vesturlandi, síðasta haust og aftur í vor.

Skorar á alþingi að hysja upp um sig

Hann á hinsvegar ekki von á neinum frekari viðbrögðum af hálfu hins opinbera. „Nei, ég á ekki von á neinu enda veit ég ekki hvernig í ósköpunum það ætti að vera,“ segir Dagbjartur. „Það sem þarf aftur á móti að gerast er að Alþingi þarf að hysja upp um sig, breyta lögunum og laga ástandið.“ Með því vísar hans til þeirrar lagalegu óvissu sem upp er komin vegna netverslana með áfengi hér á landi.

Á heimasíðu Steðja kemur fram að verðin í vefversluninni séu með virðisaukakatti og séu þau sömu og í Vínbúðinni, nema hjá Steðja sé innifalin heimsendingarþjónusta.