Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ró og spekt á Akureyri

19.07.2021 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - Rúv
Fréttir hafa verið um að ölvun og óspektir hafi verið miklar í miðbæ Reykjavíkur síðustu helgar. Á Akureyri hefur verið mikill fjöldi í bænum síðustu vikur en lögreglan þar hefur þó ekki haft í meiru að snúast en venjulega. 

 

Ekki slæmt ástand

Á Akureyri er mikill fjöldi gesta og tjaldsvæði og aðrir gististaðir eru full. Jóhann Olsen varðstjóri hjá Lögreglunni á Akureyri segir að lögregluþjónar í bænum hafi ekki upplifað slæmt ástand um helgina.

„Helgin gekk bara vel, það er náttúrulega margt fólk hérna í bænum og auðvitað fylgir því einhver smá erill en þetta gekk allt slysalaust og vel fyrir sig. Það var ekkert meira ölvunarástand núna heldur en verið hefur verið undanfarið,“ segir Jóhann.

Útköll tengjast ekki ferðamönnum

Jóhann segir þau útköll sem lögreglan hafi sinnt um helgina ekki endilega tengjast auknum fjölda ferðamanna í bænum. Eitthvað hafi verið um hávaða í heimahúsum en engin stórmál komið á borð lögreglu. Það sé þó meira að gera heldur en meðan fjöldatakmarkanir voru enn í gildi fyrr í sumar.

„Jú, auðvitað er hlutirnir öðruvísi núna en þeir voru í covid en þeir eru ekkert öðruvísi heldur en þeir voru fyrir covid. Fólk er bara að skemmta sér eins og gengur,“ segir Jóhann.