Vilja friðlýsa vegna ríks fuglalífs
Í Skerjafirði, við Álftanes verpir aragrúi fugla, og margar tegundir dvelja þar í góðu yfirlæti allan ársins hring, gæða sér á botndýrum og öðru gómsætu í fjöruborðinu. Umhverfisráðherra tók ákvörðun um fyrirhugaða friðlýsingu svæðisins að tillögu Umhverfisstofnunar og að beiðni Garðabæjar og í júní voru friðlýsingaráformin auglýst.
Fleiri en fuglar vilja nýta ströndina
Sjódrekaiðkendur reiða sig á sandfjörur í stað grjótgarða, öryggisins vegna, og hafa verið áberandi við ströndina á sunnanverðu Álftanesi. Einn þeirra, Geir Sverrisson, segir friðlýsingaráformin hafa komið sér og félögum sínum í íþróttinni í opna skjöldu. „Við eiginlega uppgötvum þetta fyrir slysni og fáum eiginlega ekki röksemdafærslu fyrir þessu, þrátt fyrir að hafa leitað að upplýsingum.“
Hann furðar sig á því að sjódrekaflug sé sett í sama flokk og vélknúnir sjósleðar eða sjókettir og veltir því upp hvort ákvörðunin byggi á vanþekkingu, jafnvel fordómum.