Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óttast að friðlýsing kippi fótunum undan sjódrekaflugi

Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr / RÚV/Kristinn Þeyr
Maður sem iðkar sjódrekaflug í Skerjafirði við Álftanes segir áform um að friðlýsa svæðið til þess fallin að kippa fótunum undan íþróttinni, í það minnsta á höfuðborgarsvæðinu. Friðlýsingaráformin byggja á því að fuglalífið á svæðinu hafi alþjóðlegt mikilvægi. 

Vilja friðlýsa vegna ríks fuglalífs

Í Skerjafirði, við Álftanes verpir aragrúi fugla, og margar tegundir dvelja þar í góðu yfirlæti allan ársins hring, gæða sér á botndýrum og öðru gómsætu í fjöruborðinu. Umhverfisráðherra tók ákvörðun um fyrirhugaða friðlýsingu svæðisins að tillögu Umhverfisstofnunar og að beiðni Garðabæjar og í júní voru friðlýsingaráformin auglýst.

Fleiri en fuglar vilja nýta ströndina

Sjódrekaiðkendur reiða sig á sandfjörur í stað grjótgarða, öryggisins vegna, og hafa verið áberandi við ströndina á sunnanverðu Álftanesi. Einn þeirra, Geir Sverrisson, segir friðlýsingaráformin hafa komið sér og félögum sínum í íþróttinni í opna skjöldu. „Við eiginlega uppgötvum þetta fyrir slysni og fáum eiginlega ekki röksemdafærslu fyrir þessu, þrátt fyrir að hafa leitað að upplýsingum.“

Hann furðar sig á því að sjódrekaflug sé sett í sama flokk og vélknúnir sjósleðar eða sjókettir og veltir því upp hvort ákvörðunin byggi á vanþekkingu, jafnvel fordómum.

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Grænbláu svæðin eru þegar friðlýst, hin stendur til að friðlýsa. Mynd: Umhverfisstofnun.

Bannið aðeins yfir sumarmánuðina

Það stendur ekki til að taka alfarið fyrir sjódrekaflug, bannið myndi eingöngu ná yfir varp- og fartíma, sem að sögn fulltrúa Umhverfisstofnunar spannar um þriggja mánaða skeið að vori og sumri. Sérfræðingar eiga eftir að skilgreina stjórnunar- og verndaráætlun fyrir landið.

Geir segir sumarið einmitt besta tímann og vonar að hægt sé að tala saman og finna málamiðlun. Það komi íþróttinni illa fari sem horfi. „Þá er einhvern veginn algerlega kippt undan okkur fótunum að stunda þessa íþrótt hér á höfuðborgarsvæðinu, við höfum alltaf litið á okkur sem útivistarfólk og náttúruunnendur og það er ekki upplifun okkar að við séum að skaða lífríki eða eitt né neitt.“

Þekkir ekki rökin fyrir banninu

Frestur til að skila athugasemdum við tillöguna rennur út næstkomandi föstudag, 23. júlí. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir að farið verði yfir allar athugasemdir sem berast. Sjálfur segist hann ekki þekkja rökin fyrir því að banna sjódrekaflug á svæðinu en segir að það verði að ganga úr skugga um að slík rök séu til staðar, eigi að banna það. Almennt fagni hann því að fólk stundi útivist, svo sem kajak-siglingar. Þá telji hann að oft geti hagsmunir fugla og manna vel farið saman.

Hvorki náðist í sérfræðinga á friðlýsingasviði Umhverfisstofnunar né umhverfisráðherra við vinnslu fréttarinnar. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV