Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Móða frá gosinu mældist í Færeyjum í gær

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Slæm loftgæði eru á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar. Náttúruvársérfræðingur telur rétt að vara viðkvæma við loftmengun. Gosmóða mældist í Færeyjum í gær.

Logn var á höfuðborgarsvæðinu í morgun og því auðvelt að greina merki um gosmengun. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir fólk almennt ekki þurfa að hafa áhyggjur af gosmekkinum.

„Í sjálfu sér fyrir venjulega manneskju er ekki ástæða til að hafa áhyggjur. Gildin eru ekki að sýna það há gildi að við erum ekki að vara fólk við að vera úti.“

Salóme segir að fólk sem viðkvæmt er fyrir loftmengun og kennir til einkenna megi huga að því að passa sig.  „Það sem við sögðum í gær að hafa börn ekki sofandi úti á meðan gildin eru svona hærri en venjulegt er.“   

Hún segir að gosmengunin mælist frá Hafnarfirði og upp í Hvalfjörð, en hvernig verður þetta næstu daga? „Það er svolítið erfitt að segja til um því þetta er ekki að koma beint frá gosstöðvunum. Þetta er eldra gas sem hefur setið hér fyrir hérna fyrir utan land og kemur með þessari vestanátt.“

Hægur vindur gerir það að verkum að gosmengunin blæs ekki í burtu frá landinu. 

„Þessi mökkur sem kemur á þriðjudegi hann getur komið í andlitið á okkur á laugardegi. Já í sjálfu sér ef hann fer út fyrir landsteinana. Við erum ekki alltaf örugg þó að gasið fari frá borginni eða byggðu bóli þá getur vel verið að það komi aftur.“

Salóme segir gosmóðu hafa greinilega orðið vart í Færeyjum. „Og það er dálítið áhugavert að segja frá því að það voru skýr merki þess að það sást greinilega gosmóða í Færeyjum í gær. Og það sést á gervihnattamyndum að það var gosmóða á milli Íslands og Færeyja.“