Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggst ekki gegn hertum aðgerðum en telur þær óþarfar

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, telur ekki þörf á hertum COVID-aðgerðum á landamærunum á þessum tíma á meðan innlögnum og alvarlegum veikindum fjölgar ekki. Hún lagðist þó ekki gegn tillögum heilbrigðisráðherra sem ríkisstjórnin samþykkti í dag og segir til bóta að fólk megi framvísa hraðprófi.

Tilkynnt var fyrr í dag að allir bólusettir á leið hingað til lands þurfi að sýna fram á neikvætt PCR-próf eða hraðpróf. Þá er mælst til þess að allir sem hafi tengslanet á Íslandi fari í skimun innan 24 tíma frá komu til landsins. 

Í ljósi fjölgunar smita er ekki ástæða til að grípa til aðgerða á landamærunum? „Á meðan við sjáum að innlögnum sé ekki að fjölga með því, að alvarleg veikindi séu ekki  að fylgja því, og bólusetningin sé að varna því að þá myndi ég ekki telja þörf á slíku,“ sagði dómsmálaráðherra í viðtali við Magnús Geir Eyjólfsson, fréttamann, í dag. 

Er þetta ekki það sem önnur lönd eru að gera víða í Evrópu? „Það eru ekki mörg lönd í Evrópu, ef einhver, með aukatakmarkanir fyrir bólusetta ferðamenn, enda kannski markmiðið með græna bólusetningarvottorðinu milli Evrópulanda að bólusettir ferðamenn geti ferðast óáreittir milli landa án aukakrafna og ég vona að við komumst aftur á þann stað sem fyrst.“

Áslaug Arna kveðst ekki hafa lagst gegn tillögum heilbrigðisráðherra sem ræddar voru á ríkisstjórnarfundi í morgun og bendir á að sú breyting að leyfa hraðpróf einfaldi ferlið til muna fyrir fólk, þar sem hægt sé að fá prófin á flestum flugvöllum. „En ég auðvitað bind vonir við það að við getum fljótt snúið aftur í þann veruleika, eins og önnur lönd, að opna hér þegar við erum búin að ná þessu mikla bólusetningarhlutfalli. Íslendingar hafa verið duglegir að mæta í bólusetningu og við treystum bólusetningunni þannig að við leyfum fólki að ferðast án auka takmarkana sem fyrst aftur með bólusetningarvottorð.“

Dómsmálaráðherra telur að hertar aðgerðir á landamærunum geti haft áhrif á ferðaáætlanir. Með græna passanum innan Evrópu sé bólusettu fólki gert kleift að ferðast milli landa með bólusetningarvottorð og það látið duga. „Þannig að það gæti auðvitað haft einhver áhrif,“ segir hún.