Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Látnum fjölgar á flóðasvæðunum

19.07.2021 - 14:03
Erlent · Flóð · Hamfarir · Þýskaland · Evrópa
Residents and shopkeepers are trying to clear mud from their homes and move unusable furniture outside in Ahrweiler, western Germany, Saturday, July 17, 2021. Heavy rains caused mudslides and flooding in the western part of Germany. Multiple have died and are missing as severe flooding in Germany and Belgium turned streams and streets into raging, debris-filled torrents that swept away cars and toppled houses. (Thomas Frey/dpa via AP)
Hreinsunarstarf er hafið í bænum Ahrweiler. Mynd: AP - DPA
165 hafa fundist látnir eftir flóðin í vesturhluta Þýskalands í síðustu viku. Margra er saknað. Fjögur hundruð milljónum evra verður varið úr ríkissjóði til uppbyggingar á flóðasvæðunum. Breskur vísindamaður segir að varað hafi verið við flóðunum, en yfirvöld trassað að láta íbúana vita.

Mest varð manntjónið í Ahrweiler-héraði í Rheinland-Pfalz. Þar létust að minnsta kosti 117. Björgunarsveitir hafa í dag einbeitt sér að því að leita þeirra sem saknað er, en að sögn skipuleggjenda leitarinnar er ekki vitað hve margir þeir eru.

Hreinsunarstarf er víða hafið. Sjálfboðaliðar keppast við að moka aur af götum, flytja brak úr húsum á brott og henda ónýtum húsgögnum, svo nokkuð sé nefnt. Að sögn þýskra fjölmiðla hyggst sambandsstjórnin reiða fram fjögur hundruð milljónir evra til uppbyggingar á flóðasvæðunum í Rheinland-Pfalz og Nordrhein-Westfalen. Horst Seehofer innanríkisráðherra sagði þegar hann kannaði aðstæður í dag að fjárveitingin yrði afgreidd á þingi á miðvikudag.

Segir viðvörun hafa verið hunsaða

Breskur vísindamaður, Hannah Cloke, prófessor í vatnafræði við háskólann í Reading, segir að varað hafi verið við yfirvofandi flóðum í Þýskalandi nokkrum dögum áður en úrhellið skall á. Yfirvöldum hafi verið gerð grein fyrir að hætta væri að skapast, einkum í grennd við árnar Erft og Ahr, sér í lagi í bæjunum Hagen og Altenahr. Hún segir í viðtali við Sunday Times að yfirvöld hafi hins vegar látið undir höfuð leggjast að vara íbúana við hættunni. Hannah Cloke er einn af höfundum spálíkans sem segir fyrir um yfirvofandi flóð í Evrópu af meiri nákvæmni en önnur.