Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hlutabréf lækka í Noregi vegna verðlækkunar á olíu

19.07.2021 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: Statoil
Hlutabréfavísitalan í kauphöllinni í Ósló féll í dag um 2,39 prósent. Það er afleiðing þess að heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði í dag um sex prósent eftir að OPEC+ samtökin ákváðu í gær að auka olíuframleiðsluna til að lækka verð og draga úr þrýstingi á efnahagskerfi heimsins af völdum COVID-19 faraldursins. 

Dagurinn í dag var sá versti í kauphöllinni það sem af er ári, að sögn fréttastofu norska ríkisútvarpsins. Markaðurinn hefur ekki tekið aðra eins dýfu síðan í desember. Undir kvöld fór verð á tunnu af Norðursjávarolíu niður í 69,23 dollara. Það hefur ekki verið undir sjötíu dollurum síðan í maí. Verð á bandarískri hráolíu lækkaði um rúmlega sex prósent í dag. Verð á tunnu fór í 67 dollara. 

Samtök olíuútflutningsríkja komust í gær að samkomulagi um að auka framleiðsluna um 400 þúsund tunnur á dag frá og með næsta mánuði og um 400 þúsund tunnur til viðbótar í hverjum mánuði að minnsta kosti fram að áramótum. Aðallega Rússland, Sádi-Arabía, Írak, Kúveit og Sameinuðu arabísku furstadæmin munu auka framleiðsluna.

Þegar heimsfaraldurinn var í hámarki í fyrra minnkuðu OPEC-ríkin framleiðsluna um 9,7 milljónir tunna á dag.