Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafði uppi óspektir og hrækti í andlit öryggisvarðar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt í gærkvöld um mann sem áreitti gangandi vegfarendur í miðborginni auk þess sem hann hrelldi viðskiptavini og starfsfólk verslunar með framferði sínu. Meðal annars hrækti hann í andlit öryggisvarðar. Maðurinn var horfinn á braut þegar lögreglu bar að.

Í nótt stöðvaði lögregla för bíls í Grafarvogi, sem reyndist hafa verið tekinn ófrjálsri hendi. Bæði ökumaður og farþegi voru handtekin og vistuð í fangaklefa enda í annarlegu ástandi og með fíkniefni í fórum sér. Skýrsla verður tekin af þeim þegar ástand þeirra leyfir. 

Síðdegis í gær þurfti lögreglan að aðstoða ölvaðan mann sem hafði dottið og slasast lítillega en hann var fluttur á slysadeild til skoðunar. Skömmu síðar barst tilkynnng um mann sem lá sofandi á gangstétt en hann var vaknaður og farinn þegar lögreglan kom á staðinn. 

Tilkynnt var um lausa hesta í Mosfellsbæ á sjöunda tímanum í gær og innbrot í fyrirtæki þar í bæ í gærkvöldi. Á ellefta tímanum var svo tilkynnt um eld í hjólhýsi á Vesturlandsvegi, slökkvilið slökkti eldinn í hýsinu sem líkast til er ónýtt. Engin slys urðu á fólki.