Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gerendameðvirkni síðustu vikna kom ekki á óvart

19.07.2021 - 10:10
Mynd: Skjáskot / RÚV
„Maður er ekkert hissa og það er eiginlega það sorglega. Þetta kemur manni ekkert á óvart,“ segir Eva Sigurðardóttir, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar í ár, um gerendameðvirkni í umræðunni síðustu mánuði í tengslum við frásagnir kvenna sem segja þekkta karlmenn hafa brotið á þeim. Hún telur þó að hópar sem vinni gegn ofbeldi tvíeflist við umræðuna. Það þurfi mikla orku til að berjast á móti gerendameðvirkni. „Ég held að þetta kveiki frekar í okkur en að róa okkur,“ segir hún.

Druslugangan verður á laugardag klukkan 14:00 frá Hallgrímskirkju. Þetta er í tíunda sinn sem gangan er farin hér á landi. Ekki var hægt að halda gönguna í fyrra vegna sóttvarnaráðstafana vegna COVID-faraldursins. Gangan er samstöðuganga með þolendum kynferðisofbeldis og segir Eva hana vera vettvang fyrir fólk til að koma saman og skila skömminni. Rætt var við Evu í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Valdaójafnvægi helsta áherslumálið í ár

Helsta áherslumál í göngunni í ár verður valdaójafnvægi og misbeiting valds, sem Eva segir vera rót margra mála. Það þurfi að tala um ólíkar birtingarmyndir valdaójafnvægis og hvernig það geti átt sér stað í mörgum ólíkum kimum samfélagsins. 

Valdaójafnvægi er rótgróið vandamál, að sögn Evu. Hægt sé að horfa á það frá ótal vinklum og þar blandist inn kynþáttahatur, fötlunarfordómar og fordómar gagnvart hinsegin samfélaginu. Eva segist telja að nær allir séu á móti ofbeldi en að einhverra hluta vegna eigi fólk stundum erfitt með að trúa þolendum þegar þeir stígi fram. „Þá koma frasar eins og af hverju kærðir þú ekki og af hverju fórstu ekki til lögreglunnar? Það er bara meira en að segja það. Þegar tölurnar sýna það að það er ekkert endilega öruggt að það fari í réttan farveg,“ segir hún. Þá sé sönnunarbyrði þung. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fyrsta gangan eftir ummæli kanadískra lögreglumanna

Fyrsta druslugangan í heiminum var farin árið 2011 í Kanada eftir umræðu um ofbeldismál þar í landi. Eva nefnir að til dæmis hafi lögreglan sagt að konur ættu ekki  að drekka meira en sex bjóra því annars væru þær að bjóða hættunni heim, og þær ættu ekki að klæða sig ákveðinn hátt. „Það voru oft háttsettir innan lögreglunnar sem voru að láta svona setningar út úr sér sem hrintu þessu af stað.“

Gangan á Íslandi hefur orðið fjölmennari með hverju árinu og sams konar göngur eru haldnar víða um heim. „Þetta er ótrúleg orka sem að myndast í göngunni og þú þarft ekki að vera þolandi til að koma, heldur að vera á móti ofbeldi almennt.“ Eva segir að alltaf myndist góð orka í göngunni og að þar komi saman fólk á öllum aldri og af öllum kynjum, sem jafnvel hafi aldrei sagt frá því ofbeldi sem það hafi verið beitt. „Gangan losar um hömlur sem fólk hefur verið að birgja inni og þarna fær það að vera það sjálft, alveg sama út frá hvaða reynslu það er.“