Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrsta sakfellingin vegna innrásarinnar í þinghúsið

epaselect epa08923424 Supporters of US President Donald J. Trump in the Capitol Rotunda after breaching Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters entered the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA
Karlmaður frá Flórída í Bandaríkjunum hefur verið sakfelldur fyrir þátt sinn í innrásinni í bandaríska þinghúsið í janúar. Hann er sá fyrsti til að vera sakfelldur og fékk hann átta mánaða fangelsisdóm.

Maðurinn heitir Paul Allard Hodgkins. Hann játaði í síðasta mánuði sök fyrir einn ákærulið, að hafa ruðst inn í Capitol-bygginguna í því skyni að hindra störf þingsins.

Saksóknarar höfðu farið fram á átján mánaða dóm yfir Hodgkins fyrir „ógn við lýðræðið“. Tóku þeir þó fram að Hodgkins hefði ekki sjálfur beitt ofbeldi eða eyðilagt muni í þinghúsinu.

Við réttarhöld í Washington sagði Hodgkins að þátttaka hans í innrásinni hefði verið „kjánaleg ákvörðun“. Hann væri fullur eftirsjár vegna þess skaða sem hann hefði valdið landinu sem hann elskaði.

Um 800 stuðningsmenn Donalds Trumps, þáverandi Bandaríkjaforseta, ruddust inn í þinghúsið í Washington-borg 6. janúar en þingmenn höfðu þá komið saman til að staðfesta niðurstöður forsetakosninganna í nóvember.

Um 140 manns slösuðust í átökum innrásarmanna við lögreglu og öryggisverði þinghússins. Þá var einn skotinn til bana af lögreglu í árásinni og þrír létust „af heilsufarsástæðum“.

Bandaríska alríkislögreglan hefur handtekið alls 535 manns sem grunaðir eru um glæpsamlegt athæfi í tengslum við innrásina og þykir málið gefa fyrirheit um það sem koma skal. 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV