Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki þarf að fresta brottvísunum héðan til Afganistan

epa09325530 Afghan security officials inspect the scene of a bomb blast in Kandahar, Afghanistan, 06 July 2021. A car bomb exploded near a police center killing at least two police and injuring 24 others in Kandahar. The Taliban on 05 July said they planned to capture no Afghan provincial capital by military force even as its fighters continue making rapid territorial gains amid an ongoing withdrawal of foreign troops from the war-ravaged country. Violence in the country has spiked as representatives of the Afghan government and the Taliban try to resume the stalled intra-Afghan talks in Doha.  EPA-EFE/M SADIQ
Afganskir hermenn kanna verksummerki eftir sprengjuárás talibana í Kandahar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Í ljósi versnandi ástands í Afganistan hafa sænsk og finnsk stjórnvöld stöðvað brottvísanir þaðan til Afganistan um óákveðinn tíma. Ekki er þörf á að grípa til sams konar aðgerða hér á landi.

Nær engum vísað héðan til Afganistan

Þetta segir Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar. Ástæðan er einfaldlega sú að um fáa einstaklinga er að ræða og langflestir þeirra hljóta hér ýmist vernd eða viðbótarvernd. Nær engum er vísað til Afganistan og umfangið kallar því ekki á viðbrögð. Í Svíþjóð er umfang málsins aftur á móti allt annað. Þar nær ákvörðunin til um sjö þúsund manns frá Afganistan.

Lengi getur vont versnað

Ástandið í Afganistan hefur hríðversnað undanfarið. Átök hafa færst í aukana eftir brotthvarf bandaríska hersins og fjölþjóðaherliðsins og Talibanar hafa sætt færis til að herða heljartök sín víðs vegar á landsbyggðinni. Til að bæta gráu ofan á svart hefur ný bylgja af kórónuveirusmitum blossað upp í landinu.

Fáir umsækjendur með hátt veitingarhlutfall

„Frá Afganistan eru umsækjendur frekar fáir sem gerir okkur kleift að skoða hvert og eitt mál fyrir sig og óþarfi að taka sérstakar ákvarðanir fyrir hópinn allan,“ segir Þorsteinn. „Þetta er lítill hópur með mjög hátt veitingarhlutfall þegar kemur að því að ákvarða hvort vernd verði veitt eða ekki.“

35 fengu vernd af 46 árið 2020

Þegar tölfræði fyrir árið 2020 er skoðuð á vef Útlendingastofnunar kemur í ljós að 46 einstaklingar sóttu um vernd hér á landi það árið. 22 hlutu vernd og 13 viðbótarvernd, eða samtals 35. Átta einstaklingar voru sendir aftur á grundvelli Dyflinnarsáttmálans, tveir hlutu vernd í öðru ríki og mál eins aðila hlaut „önnur lok“ eins og það er kallað. Í þeim tilfellum láta einstaklingar sig oftast hverfa úr landi sjálfir meðan mál þeirra er tekið til efnislegrar meðferðar.