Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dagur frelsis á Englandi

19.07.2021 - 20:28
Mynd: Shutterstock / Shutterstock
Öllum sóttvarnaaðgerðum innanlands var aflétt á Englandi á miðnætti þrátt fyrir viðvaranir vísindafólks.

Boris Johnson forsætisráðherra hélt blaðamannafund úr sóttkví í dag og stendur fast á því að nú sé rétti tíminn til að veita fólki frelsi á ný.

Næturklúbbar máttu opna á miðnætti og skeytti skemmtanaþyrst fólk litlu um þá staðreynd að í dag er mánudagur. Þar voru gestir í meira lagi ánægðir með breytinguna.

Skiptar skoðanir voru hins vegar meðal farþega, sem teknir voru tali, í jarðlestunum í Lundúnum í dag. Þrátt fyrir að engin krafa sé um grímunotkun lengur, fylgdu flestir tilmælum borgarstjórans um að bera grímu.

Boris Johnson forsætisráðherra biðlar til fólks að fara með gát. Strangari takmarkanir eru enn í gildi í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi en heimastjórnir í hverju landi fyrir sig ráða för. Engin heimastjórn er á Englandi.

Tilfellum fjölgar en dauðsföll eru færri

Hópur vísindamanna um allan heim hefur gagnrýnt afléttingarnar á Englandi og sagt þær ógn við umheiminn. England sé miðstöð millilandaflugs og afléttingin geti orðið til þess að ný afbrigði, ónæm fyrir bóluefnum, dreifist um heimsbyggðina. Bandarísk stjórnvöld vöruðu í dag við ferðalögum til Bretlands vegna smithættu.

Faraldurinn er sannarlega ekki á niðurleið í Bretlandi. Fjöldi nýrra greindra smita nálgast nú sama fjölda og þegar síðasta bylgja stóð sem hæst, um og yfir 50 þúsund. Þótt tilfellum fari fjölgandi eru þau þó ekki jafnalvarleg og áður. Mun færri dauðsföll hafa verið rakin til Covid-19 nú en í fyrri bylgjum.

Boris Johsnon forsætisráðherra er í sóttkví eftir að Sajid Javid, nýr heilbrigðisráðherra greindist með Covid. Hann hélt því blaðamannafund af sveitasetri forsætisráðherra, Chequers.

„Það kemur að því, þegar svo margir hafa verið bólusettir, að frekari takmarkanir fyrirbyggja ekki lengur innlagnir á sjúkrahús og dauðsföll heldur fresta bara því óhjákvæmilega“ sagði Boris Johnson á fundinum.

Fólk þyrfti að spyrja sig hvenær ætti að aflétta sóttvarnaaðgerðum ef ekki núna.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV