Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aldrei fleiri smituð á Grænlandi - reglur hertar

Mynd með færslu
 Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Á Grænlandi eru nú 29 virk smit sem er það mesta sem verið hefur frá því að faraldurinn braust út, tíu þeirra er í höfuðstaðnum Nuuk. Heimastjórn Grænlands kynnti nýjar og hertar samkomureglur á blaðamannafundi í dag.

Heimastjórnin hefur ákveðið að grípa til harðra ráðstafana og bannar ferðir óbólusettra milli bæja, hvort sem er siglandi, fljúgandi eða með langferðabíl. Frá þessu er greint á vef grænlenska ríkisútvarpsins.

Tæplega 19 þúsund 56 þúsund íbúa landsins teljast fullbólusett. Heimastjórnin ákveðið að framlengja grímuskyldu á almannafæri til 30. júlí næstkomandi. Ekki mega fleiri en tuttugu koma saman í einu.

Átján ára og yngri og fólk sem af einhverjum ástæðum getur ekki þegið bólusetningu er undanþegið nýju reglunum sem Múte B. Egede formaður landsstjórnarinnar tilkynnti á blaðamannafundi í dag.

Nú leitar heimastjórnin leiða til útgáfu bólusetningarvottorða. Reglurnar taka við á miðnætti og gilda til mánaðamóta. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV