Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ágreiningur um aðgerðir kemur ekki á óvart

19.07.2021 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Heilbrigðisráðherra segir það gæfu landsmanna að hafa fylgt ráðleggingum sóttvarnarlæknis. Árangurinn tali sínu máli. Ágreiningur er innan ríkisstjórnar um hvort þörf sé á hertum landamæraaðgerðum sem ákveðnar voru í morgun.

Sjálfstæðismenn með efasemdir frá upphafi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það ekki koma á ávart að ágreiningur sé innan ríkisstjórnar um þörfina á hertum sóttvarnaraðgerðum við landamærin. Sjálfstæðismenn hafi allt frá upphafi faraldurs verið með efasemdir um ýmsar sóttvarnarráðstafandir. En duga aðgerðirnar nú? 

Mild aðgerð

„Það er að minnsta kosti okkar von" segir Svandís. „Þetta er mjög mild aðgerð þannig séð þegar við gerum ráð fyrir að það sé hægt að framvísa hvort sem er PCR prófi eða hraðprófi. Þetta er viðleitni til að draga úr líkum á því að bólusettir komi hér inn með smit, en því miður hefur það komið okkur á óvart hversu algengt það hefur verið".

Efasemdir um stefnu sem reynst hafi vel

Svandís það kom í ljós eftir ríkisstjórnarfundinn í hádeginu að ráðherrar voru ekki á einu máli um þörfina fyrir hertum landamæraðagerðum þó svo að þessar tillögur hafi verið samþykktar. Er samstaðan að bresta innan ríkisstjórnarinnar?

„Nei. Þetta kom í sjálfu sér ekki á óvart. Sjálfstæðismenn hafa auðvitað komið fram með efasemdir um ýmsar sóttvarnarráðstafanir í raun frá upphafi faraldursins.  Þeir hafa lýst efasemdum um stefnuna, sem er raunar stefnan sem hefur vakið athygli víða um heim vegna þess hversu vel hún hefur gengið og hversu góðum árangri við höfum náð".

Ekkert tilefni til að hverfa frá stefnunni

„Eini mælikvarðinn á hversu góð stefnan er, eða hversu góðar aðgerðirnar eru, er árangurinn. Og árangurinn hefur verið góður hingað til. Það hefur verið okkar gæfa að fara að ráði okkar besta fólks, að styðja í öllum megin atriðum tillögur sóttvarnarlæknis og ég held að það sé ekkert tilefni til þess að hverfa frá þeirri stefnu" segir Svandís Svavarsdóttir.