Þegar Fanney Benjamínsdóttir er spurð hvort hún og Pétur Hjörvar Þorkelsson maðurinn hennar hafi planað barneignir, þá þykir þeim hæpið að skilgreina aðdragandann sem plön. Pétur hafði reyndar verið tilbúinn til að stækka fjölskylduna frekar lengi en þegar Fanney var það líka gerðust hlutirnir hratt. „Það var eiginlega skyndiákvörðun,“ segir Fanney í viðtali við Önnu Marsibil Clausen í Ástarsögum á Rás 1.
Lífið breyttist á einni nóttu
Hún var á göngu niður Hofsvallagötu og sér mann á rölti með lítið barn í fanginu, sem Fanneyju þótti það fallegasta sem hún hafði nokkurn tíma séð. Barnið var með oddmjóa lambhúshettu og minnti á lítinn álf. „Ég varð hugfangin af þessu barni,“ segir Fanney sem fann það loksins þennan dag að hún væri líka tilbúin. Hún kom heim og tilkynnti Pétri ákvörðun sína. Það liðu þó ekki nema fimmtán dagar þar til þungunarprófið sýndi tvö rauð strik og Fanney áttaði sig á að hún væri með barni. „Svo þetta var meiri skyndiákvörðun en plan,“ segir Fanney. „Lífið breyttist svolítið yfir nótt,“ tekur Pétur undir.
Vissi að það væri eitthvað spennandi að gerast
Þegar Fanney keypti óléttuprófið ákvað hún að láta Pétur ekki vita, hún vildi ekki valda honum vonbrigðum. Þegar svarið varð ljóst varð hún þó strax spennt að færa fregnirnar, en þegar hún kom fram var Pétur í símanum. Hann var á þeim tíma að vinna að rannsókn í Háskólanum og þurfti að svara mörgum símtölum henni tengdri. Þau voru mislöng, en þetta var sérstaklega langt. Fanney iðaði í skinninu. „Í minningunni er þetta lengsta símtal allra tíma. Ég stóð í stofugættinni og horfði á hann og beið.“ Pétur man óþreyjufullan svipinn á Fanneyju. „Ég vissi að það væri eitthvað spennandi að gerast.“ Gleðin sem greip um sig hjá Pétri þegar fréttirnar voru ljósar varð til þess að hann gleymdi að hringja seinna símtalið þann daginn.
Trúði því ekki að hún væri ólétt
Fanney fór fljótt að finna fyrir morgunógleði en einhvern veginn trúði hún því samt ekki lengi að þetta væri raunverulegt. „Aftast í hausnum læddist sá grunur að mér að ég væri ekki ólétt.“ Hún hringdi upp á Heilsugæslu og fékk samband við ljósmóður sem sagði henni að koma í skoðun þegar hún væri komin tíu vikur á leið. Fanney og Pétur ákváðu að segja engum frá óléttunni fyrr en þau hefðu fengið hana staðfesta í sónar. Það kom nánast á óvart að sjá það í tólf vikna sónar hve raunverulegt þetta væri. „Þetta er bara barn sem vinkar og sveiflar fótunum, og mér fannst sjokkerandi að sjá það því ég var hálfpartinn að búast við að það væri ekkert,“ rifjar Fanney upp.
Hitti ókunnuga konu og réð ekki við sig
Það var ekki fyrr en eftir þennan örlagaríka sónar sem þau sögðu sínu nánasta fólki frá fjölguninni, reyndar hafði ein manneskja fengið veður af því fyrr. Það var manneskja sem þau þekktu ekki neitt. „Pétur var mjög spenntur eins og ég segi. Hann var búinn að spyrja mig lengi hvort hann mætti ekki segja einhverjum, en ég var ekki alveg á því. Ég var ekki alveg viss um að ég væri ólétt,“ segir Fanney sposk. Einn dag kom Pétur heim nokkuð skömmustulegur vegna þess að hann hafði kjaftað frá. „Þá hafði hann sagt ókunnugri konu í strætó að hann ætti von á barni.“
Pétur rifjar atvikið upp. Á þessum tíma var hann eins og áður segir að vinna í rannsókn þar sem hann tók viðtöl við einstæða feður sem gjarnan spurðu hann hvort hann ætti sjálfur börn. Pétur þurfti að bíta í tunguna á sér til að segja ekki stoltur að hann væri með barn á leiðinni. Eftir eitt slíkt viðtal tók hann strætó upp í skóla „og á þessum örlagaríka degi held ég að það hafi bara eitthvað sprungið“.