Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýttu snjallsíma-óværuna Pegasus í njósnir

18.07.2021 - 20:17
Mynd með færslu
Mohammed bin Salman krónprins. Mynd:
Viðskiptavinir ísraelska fyrirtækisins NSO hafa frá árinu 2016 getað njósnað um aðgerðarsinna, blaðamenn og stjórnmálamenn með því að nota tölvuóværuna Pegasus til að brjótast inn í snjallsíma. Blaðamenn Wall Street Journal, The New York Times, Le Monde og AP eru meðal þeirra sem fylgst hefur verið með.

Þetta kemur fram í umfjöllun fjölmiðla á borð við Guardian, Washington Post og Le Monde sem byggð er á gagnaleka frá ísraelska fyrirtækinu. 

Meira en 50 þúsund símanúmer eru í gagnalekanum en ekki liggur fyrir hvort brotist hafi verið inn í alla símana með óværunni.  Rannsókn Guardian á litlum hluta þeirra benti engu að síður til þess að mikill meirihluti þeirra væri sýktur.

Fram kemur í frétt Guardian að Pegasus-óværan geti sýkt bæði Android og Iphone-síma. Viðkomandi getur í framhaldinu nálgast skilaboð, myndir og tölvupóst, tekið upp símtöl og virkjað leynilegan hljóðnema. 

Í gagnalekanum eru meðal annars símanúmer tveggja kvenna sem tengdar eru sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khasoggi. Hann var tekinn af lífi í sendiráði í Tyrklandi og hafa yfirvöld í Sádi-Arabíu verið sökuð um að bera ábyrgð á aftökunni.  

Í umfjöllun Guardian kemur fram að yfirvöld í Sádi-Arabíu séu talin hafa nýtt sér óværuna til að fylgjast með blaðamanninum og fjölskyldu hans,  fyrir og eftir morðið. 

Símanúmer þjóðhöfðingja, forsætisráðherra, stjórnarerindreka og stjórnmálamanna eru einnig í gagnalekanum. Þá er þar einnig að finna símanúmer blaðamanns í Mexíkó sem myrtur var á bílaþvottastöð. Sími hans hefur aldrei fundist og því ekki hægt að sannreyna hvort sími hans hafi verið sýktur. 

Alls eru símanúmer 180 blaðamanna í gagnalekanum. Sá sem hefur gengið hvað lengst í að nýta sér óværuna til að fylgjast með blaðamönnum og eigendum fjölmiðla er Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, samkvæmt frétt Guardian.

Forsvarsmenn NSO vísa öllum ásökunum á bug í yfirlýsingu til Washington Post og segja fréttaflutninginn ýkjur.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV