Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nokkur skref tekin að undirbúningi Hvammsvirkjunar

Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Nokkur mikilvæg skref voru tekin að undirbúningi Hvammsvirkjunar í Þjórsá í júní. Þá samþykktu tvær sveitarstjórnir deiliskipulag fyrir virkjunina og Landsvirkjun sótti um virkjunarleyfi. Oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir mörg skref eftir enn. Einn andstæðingur virkjunarinnar segir hana valda of miklu álagi á náttúruna, sveitina og landslagið. 

Búið að sækja um virkjunarleyfi

Landsvirkjun hefur lengi undirbúið Hvammsvirkjun í Þjórsá. Þar eru þegar eru sjö virkjanir fyrir ofan Hvammsvirkjun í Þjórsá og þverám hennar Tungnaá og Köldukvísl. 

Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Rangárþing ytra liggja að Þjórsá þar sem virkjunin er fyrirhuguð. Uppistöðulónið, Hagalón, verður í um 116 metra hæð yfir sjávarmáli og fjórir ferkílómetrar. Hvammsvirkjun á að geta framleitt allt að 93 megawött. 

Landsvirkjun sótti um virkjunarleyfi hjá Orkustofnun fyrir einum mánuð, þann 8. júní. Það leyfi er forsenda framkvæmdaleyfis. Ekki er búið að ákveða hvort eða hvenær sótt verður um framkvæmdaleyfi. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir á vef hennar að það gæti orðið á næsta ári, að því gefnu að virkjunarleyfi liggi þá fyrir.

Deiliskipulag samþykkt í báðum sveitarstjórnum

Framkvæmdasvæði Hvammsvirkjunar er í Rangárþingi ytra og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Sveitarstjórnir beggja sveitarfélaga samþykktu breytingu á deiliskipulaginu í júní. Í því eru heimildir vegna framkvæmda og uppbyggingar á virkjun í Þjórsá skilgreindar. 

„Þetta hefur í raun ekkert að segja um Hvammsvirkjun sem slíka. Þetta er bara ein breytingin af mörgum og þetta gerist áfram.  Það eru mörg leyfi eftir enn,“ segir Björgvin Skafti Bjarnason oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

En af hálfu sveitarfélagsins þá er þetta svona skref í þá átt að hún verði að veruleika?

„Já það má segja það.“

Björgvin Skafti er einn þriggja fulltrúa O-lista í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, einn er fyrir A-lista og einn fyrir G-lista, Grósku. Sá sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Of mikið álag á náttúruna, sveitina og landslagið

Gróska er andsnúin gerð Hvammsvirkjunar. Anna María Flygenring bóndi í Hlíð 1, er á lista Grósku, og henni líst ekki vel á þróunina:

„Mér líst ekki vel á það. Ég hef náttúrulega verið í þessari andstöðu alveg í ansi mörg ár. Og ég hef ekki séð bæði ekki ástæðu til þess að leggja meira land undir vatn. Þarna er gróið land. Þarna er friðuð eyja sem er einstök. Það er búið að taka mikið af Þjórsá. Það er búið að taka mikið af vatninu hennar og öll eggin í sömu körfu,“ segir Anna María.

Þannig að þú vilt að það sé nú beðið með þetta?

„Já mér finnst það bæði óþarfi og mér finnst það of mikið álag á náttúruna, sveitina og landslagið.“

Skipulagsstofnun á eftir að afgreiða deiliskipulagið. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Björgvin Skafti Bjarnason.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Anna María Flygering.
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfis- og tæknisvið Uppsve - RÚV
Deiliskipulagið. Gnúpverjahreppur er misritað og er með stóru G.
Mynd með færslu
 Mynd: Landsvirkjun - RÚV
Fyrirhuguð Hvammsvirkjun samkvæmt tölvugerðri mynd Landsvirkjunar.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV