Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mótmæla reglum um bólusetningar í Frakklandi

18.07.2021 - 12:15
epa09350333 A protester gather during a demonstration against the COVID-19 vaccination in Paris, France, 17 July 2021. In a recent TV statement, French President Emmanuel Macron announced France will extend the use of its Vaccinal Passeport to cultural place, transport, restaurant, etc, after Covid-19 infections soared this week because of the more infectious Delta variant.  EPA-EFE/YOAN VALAT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjölmenn mótmæli hafa farið fram í Frakklandi í vikunni eftir að ríkisstjórn Emmanuels Macron ákvað á mánudag að öllu heilbrigðisstarfsfólki bæri að fara í bólusetningu.

Á mánudaginn var tilkynnt um þá ákvörðun ríkisstjórnar Emmanuels Macrons, forseta Frakklands, að skikka alla heilbrigðisstarfsmenn í landinu í bólusetningu gegn Covid 19. Sömuleiðis beri þeim og öðrum Frökkum að framvísa bólusetningaskrírteini á fjölmennum opinberum stöðum sé eftir því óskað. Geti fólk ekki framvísað bólusetningarskírteini verður það að framvísa nýlegu vottorði um að það sé ekki með kórónuveirusmit, til dæmis til að geta sest inn á veitingastaði. 

Síðan reglurnar voru settar á mánudag hefur þeim fjölgað til muna, Frökkunum sem óska eftir að fá bólusetningu. Hins vegar eru ekki öll sátt við reglur ríkisstjórnarinnar og tugir þúsunda hafa komið saman á götum Parísar og víðar til að láta í ljós óánægju sína. 

„Niður með einræðið“ og „Heilsan mín kemur þér ekki við“ er meðal þess sem stóð á kröfuspjöldum mótmælenda. Þá hrópuðu mörg þeirra einfaldlega „Frelsi".

Lögreglan í París beitti táragasi á þá mótmælendur sem þeim fannst ganga hvað harðast fram í mótmælum sínum í gær.

Efasemdir um ágæti bólusetninga hafa verið hvað mestar í Frakklandi af öllum Evrópuþjóðum síðan faraldurinn blossaði upp. Í skoðanakönnun sem gerð var í desember í fyrra kom fram að 42% Frakka höfðu hug á að láta bólusetja sig. Það hlutfall var komið upp í 70% nú í apríl. Rétt rúmlega helmingur fullorðinna í Frakklandi hafa nú fengið hið minnsta einn skammt af bóluefni gegn Covid. 
 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV