Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm dagar í Ólympíuleikana - Mo Farah slær í gegn

epa05504251 Mo Farah of Britain poses with his gold medals on the podium after winning the men's 5000m final of the Rio 2016 Olympic Games Athletics, Track and Field events at the Olympic Stadium in Rio de Janeiro, Brazil, 20 August 2016. farah alson
Mo Farah leggur gaddaskóna á hilluna í haust. Mynd: EPA

Fimm dagar í Ólympíuleikana - Mo Farah slær í gegn

18.07.2021 - 11:00
Ólympíuleikarnir verða settir í Tókýó á föstudaginn kemur. Í aðdraganda leikanna rifjum við því upp nokkur eftirminnileg augnablik í sögu leikanna. Í dag rifjum við upp afrek Mo Farah á leikunum í Lundúnum 2012 og Ríó 2016.

Mohamed Muktar Jama Farah fæddist í Mogadishu í Sómalíu árið 1983 en þegar hann var ungur flúði fjölskylda hans landið og þegar hann var átta ára settist fjölskyldan að á Englandi. Faðir hans fæddist og ólst upp á Englandi.

Upphaflega stefndi Mo á að verða bifvélavirki eða hægri vængmaður hjá enska úrvalsdeildarliðinu Arsenal. Hann sneri sér þó snemma að hlaupabrautinni.

Hann náði fljótlega árangri í hlaupum og eftir Evrópumeistaratitla í víðavangshlaupi varð hann Evrópumeistari í 3000 metra hlaupi innanhúss 2009 og 2011. Utanhúss varð hann Evrópumeistari í 5000 metra hlaupi 2010 og 2012 og 10000 metra hlaupi 2012.

Stórstjarna á heimavelli

Mo Farah var því vel þekktur þegar kom á leikunum í Lundúnum 2012. Bretar höfðu miklar væntingar og gengi liðs þeirra var gott. 

4. ágúst 2012 hafði breska frjálsíþróttafólkið þegar unnið tvær greinar þegar kom á 10000 metra hlaupinu. Stemningin á Ólympíuleikvanginum var því mögnuð þegar Farah sigldi fyrstur í mark í hlaupinu og vann fyrstu gullverðlaun Breta í greininni.

12. ágúst bætti Farah við öðru gulli, nú í 5000 metra hlaupi. Hamagangurinn á á Ólympíuleikvanginum var svo mikill á endasprettinum var slíkur að stúkurnar nötruðu og ljósmyndirnar sem teknar eru af endalínunni til að skera úr um naum úrslit urðu hristar og ógreinilegar.

Mo hafði hlaupið sig inn í hjörtu Breta en átti nóg inni.

Hann varð heimsmeistari í 5000 og 10000 metra hlaupi á HM 2013 og varð þá tvöfaldur heims- og Ólympíumeistari. 

Eftir þetta fór hann að snúa sér að auki að maraþonhlaupi og hljóp sitt fyrsta maraþon 2014.  Hann sleppti þó ekki takinu á sínum aðalgreinum og varði heimsmeistaratitla sína á HM 2015.

Leikurinn endurtekinn 2016

Mo var í góðu formi 2016. 13. ágúst 2016 mætti hann í 10000 metra hlaupið í Ríó. Á 10. hring hlaupsins féll hann hins vegar eftir að Bandaríkjamaðurinn Galen Rupp rakst aftan í hann. Farah spratt á fætur og hóf eftirförina. Hann átti magnaðan endasprett og komst fram úr Keníamanninum Paul Tanui þegar 100 metrar voru eftir. Mo sigraði og varð fyrstur Breta til að vinna þrenn gullverðlaun í frjálsum á Ólympíuleikunum. 

Fjórðu gullverðlaunin bættust svo í safnið 20. ágúst. Þá sigraði hann í 5000 metra hlaupinu og varði því titla sína í báðum greinum. Það var aðeins í annað sinn í sögunni sem sami maður vann 5000 og 10000 metra hlaup tvo leika í röð, en Finninn Lasse Viren gerði slíka 1972 og 1976.

Eftir afrekin í Ríó tilkynnti Mo að hann myndi snúa sér alfarið að götuhlaupum eftir HM 2017, sem fór einmitt fram í Lundúnum. Hann vann 10000 metra hlaupið, þriðja mótið í röð, og fékk silfur í 5000 metrunum. 

Hann varð þriðji í Lundúnamaraþoninu 2018 og setti breskt met. Hann vann sitt fyrsta maraþonhlaup í Chicago 2018 og setti um leið Evrópumet.

Mo reyndi svo aftur við 10000 metrana fyrr í ár. Hann náði hins vegar ekki Ólympíulágmarkinu og keppir því ekki í Tókýó.

Hann er einn vinsælasti íþróttamaður Breta og margir telja hann jafnframt einn þann besta í sögunni. Elísabet II, Englandsdrottning, aðlaði hann fyrir þjónustu við íþróttir á nýársdag 2017 og ber hann síðan þá titilinn Sir Mo Farah.