Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Er vinnan þín kjaftæði?

Mynd: CC0 / Pixabay

Er vinnan þín kjaftæði?

18.07.2021 - 14:00

Höfundar

„Það er líkt og það sé einhver þarna úti sem finnur upp á tilgangslausum störfum til þess eins að halda okkur öllum vinnandi.“ Snorri Rafn Hallsson, þýðandi og dagskrárgerðarmaður, veltir fyrir sér kenningu Davids Graeber um kjaftæðisstörf.

Snorri Rafn Hallsson skrifar:

5. janúar 2015 var ósköp venjulegur dagur í Lundúnum, eins og víða annars staðar væntanlega. Jafnvel venjulegri en dagarnir þar á undan. Þetta var fyrsti mánudagur ársins, jólafríinu var lokið og tími til kominn fyrir Lundúnabúa að snúa aftur til sinna starfa, mæta aftur í vinnuna. 

Helsti ferðamáti margra þar í bæ er neðanjarðarlestin – The Tube – sem með sínum 11 leiðum og 270 stöðvum ferjar milljónir manna milli staða dag hvern. Það er því bæði eftirsóknarvert og árangursríkt að auglýsa á lestarstöðvunum og ekki síst um borð í lestunum sjálfum þar sem fólk hefur fárra annarra kosta völ en að rýna í auglýsingarnar á daglegri ferð sinni. Alla jafna sýna auglýsingarnar eitthvað á borð við gylliboð um tískufatnað, skyndibita, og ferðalög á framandi staði eins og Portsmouth eða Cornwall. En þarna, 5. janúar 2015 á fyrsta mánudegi ársins, ósköp venjulegum degi annars, var annað uppi á teningnum. 

Um nóttina hafði 500 auglýsingum verið skipt út í leyfisleysi fyrir skilaboð með þveröfugan boðskap. Í stað þess að halda að farþegum boðum um það sem strangt til tekið er óþarfi, eða hvers helsta hlutverk er að gera daginn utan eða eftir vinnu bærilegri, var tilgangur vinnunnar sjálfrar dreginn í efa. Skilaboðin voru á þessa leið:

  • Stór hluti fólks ver dögum sínum í að sinna verkefnum sem það innst inni telur að ekki þurfi að sinna.
  • Það er líkt og það sé einhver þarna úti sem finnur upp á tilgangslausum störfum til þess eins að halda okkur öllum vinnandi.
  • Sá siðferðilegi og sálræni skaði sem hlýst af þessu fyrirkomulagi er afgerandi. Þetta er ör á sameiginlegri sál okkar. Samt talar enginn um það.
  • Hvernig er einu sinni hægt að byrja á að tala um reisn í því að vinna þegar innst inni líður manni eins og starf manns ætti ekki að vera til?

Þetta er ekki endilega það sem mann langar til að sjá fyrsta daginn á leiðinni í vinnuna eftir frí. Er samt of langt seilst að ætla að margir farþeganna, með fyrsta mánudagsblús ársins gætu samsinnt þessu, fundið fyrir tilgangsleysi þess sem beið þeirra á áfangastað?

Ég held ekki.

Skilaboðin sem blöstu við Lundúnabúum voru fengin úr greininni „On the Phenomenon of Bullshit Jobs“ eftir bandaríska mannfræðinginn og anarkistann David Graeber. Grunntesan hans er sú að stór hluti starfa sé svo tilgangslaus að þau séu í raun algjört kjaftæði. Þetta á aðallega við um fjármálageirann, lögfræðinga, mannauðsstjóra, almannatengla og ráðgjafastörf að sögn Graebers, störf sem að mestu leyti snúast um að hafa umsjón með fólki og fjármagni í nýfrjálsum heimi. Og ekki nóg með það að þessi störf séu óþörf heldur geta þau verið beinlínis skaðleg, ef ekki skaðleg samfélaginu þá í það minnsta skaðleg þeim sem þurfa að sinna þeim. Því hvað er meira sálardrepandi, mannsandakremjandi en að verja 40 til 60 klukkustundum á viku í fullkomlega merkingarlausa iðju, og þurfa í ofanálag að láta eins og það sé í góðu lagi?

Greinin hlaut strax mikil viðbrögð, hún var þýdd og gefin út á fjölda tungumála og fór sem eldur í sinu um tölvupóstkerfi stórfyrirtækja milli skrifstofublóka og bankamanna, bjúrókrata, forritara og auglýsingapésa sem höfðu loks fundið skýringu á tilvistardeyfð sinni. Störfin þeirra voru tilgangslaus, þetta fólk gerði ekkert raunverulegt gagn í vinnunni, og loksins hafði einhver haft orð á því sem ekki mátti segja. Graeber hófst þegar handa við að safna vitnisburðum frá þessu fólki þar sem það útlistaði tilgangsleysi starfa sinna og úr varð metsölubókin Bullshit Jobs: A Theory. 

Kjaftæðisstarf skilgreinir Graeber svo:

„Kjaftæðisstarf er launað starf sem er svo algjörlega tilgangslaust, gagnslaust eða skaðlegt að jafnvel sá eða sú sem sinnir því getur ekki réttlætt tilvist starfsins. Á sama tíma, sem hluti af skilyrðum starfsins, verður starfsmaðurinn að láta sem svo sé ekki.“

Graeber leggur töluverða áherslu á þennan huglæga þátt í kjaftæðisstörfum, því hann er bæði það sem skilgreinir kjaftæðisstörf og það sem veldur skaðanum. Það getur verið snúið að skilgreina nákvæmlega hvað hefur tilgang, hvað merking er og svo framvegis. Við erum búin að rífast um þetta í mörg þúsund ár, en alla jafna þekkjum við það þegar við sjáum það. Við verðum óþægilega vör við það þegar okkur skortir tilgang og finnum að við erum ekki valdur að neinu. 

Hvaða störf eru þetta þá? Ég hef minnst á bankastarfsmenn og lögfræðinga, almannatengla og mannauðsstjóra. Heldur Graeber því virkilega fram að millistéttin sé svo gott sem óþörf og geri ekkert gagn? Og hver er hann, eða ég eða þú ef út í það er farið, til að dæma hvort starf einhvers annars sé kjaftæði eða ekki?

Grípum niður í bók Graebers og heyrum hvernig Ben, dæmigerður millistjórnandi lýsir sínu kjaftæðisstarfi:

„Það vinna tíu manns fyrir mig, en eftir því sem ég fæ séð þá geta þau öll sinnt sínu starfi án minnar umsjónar. Mitt eina hlutverk er að fela þeim verkefni, sem þau sem búa til verkefnin gætu að öllum líkindum gert sjálf. (Í ófáum tilfellum eru verkefnin afurð annarra stjórnenda í kjaftæðisstörfum, svo mitt starf er tvöfalt kjaftæði.) Ég fékk starfið við stöðuhækkun og mikið af mínum tíma fer í að velta því fyrir mér hvað ég eigi eiginlega að vera að gera. Ég held að ég eigi að hvetja starfsfólkið áfram, en ég efast um að ég sé launa minna virði í því, þó ég sé virkilega að reyna!“

Ben er í raun algjörlega óþarfur yfirmaður og hann veit það sjálfur. Ef hann léti sig skyndilega hverfa hefði það engin áhrif á störf annarra, engin áhrif á heiminn. 

Önnur tegund kjaftæðisstarfa eru óþarfa undirmenn, sem Graeber kallar undirlægjur, og minna á fylgdarlið aðalsmanna forðum. Þeirra helsti tilgangur er að láta aðra líta út fyrir að vera merkilegri en þeir eru, vera neðst í fæðukeðjunni svo aðrir geti verið ofar, eins og móttökuritarar sem svara tvisvar í símann á dag en hanga annars í tölvunni því það er ekkert að gera. Þá eru ónefndir ribbaldarnir sem fyrirtæki ráða til að gæta sinna hagsmuna því önnur fyrirtæki hafa ráðið ribbalda til að gæta þeirra hagsmuna. Ef enginn annar væri með lögfræðinga eða almannatengla á sínum snærum þá hefðir þú enga þörf fyrir þá heldur.

Plástrarar eru þeir sem verja dögum sínum í að díla við afleiðingar vandamála í stað þess að leysa þau, þetta er þekkt fyrirbæri í hugbúnaðargeiranum þar sem forritarar klastra saman hugbúnaðarlausnum á vinnutíma og stoppa í götin, en í frítíma sínum þróa þeir opin kerfi frá grunni.

Að haka í reiti er hluti af mörgum störfum, þar sem stundum skiptir meira máli að fylla út rétt eyðublað eða skila fallegri skýrslu heldur en að koma hlutum í framkvæmd. Þetta tekur tíma frá því sem starfið gengur í raun út á, en reitahakarar eru í störfum sem snúast alfarið um þetta. Þeir sitja í rannsóknarnefndum, gera áreiðanleikaúttektir og votta plögg til að uppfylla staðla sem krefjast þess einungis að rétt blöð séu fyllt út. Þessu er samviskusamlega safnað saman og komið fyrir í skúffu um ókomna tíð.

Ef öll þessi störf myndu gufa upp værum við betur sett. Það sama gildir ekki um öll störf, og ekkert endilega alla millistjórnendur ef út í það er farið, það þýðir lítið að alhæfa í þessum efnum. Það læðist þó að manni grunur um að verkfall millistjórnenda hefði töluvert minni áhrif á gang samfélagsins en ef hvaða láglaunastétt sem er legði niður störf. Leikskólakennarar, ræstitæknar, frístundaleiðbeinendur og svo mætti lengi telja búa kannski við slæm kjör og stundum bágar vinnuaðstæður, en þú skalt ekki halda í hálfa sekúndu að þessi störf séu kjaftæði. Spurðu bara þá sem vinna þessi störf.

Þú ert stödd í tjúbinu á fyrsta vinnudegi ársins, með fyrsta mánudagsblús ársins á leiðinni í vinnuna. Fyrir 100 árum var því spáð að tæknin myndi losa okkur öll undan oki vinnunnar en á áfangastað bíður þín ekkert nema haugur af verkefnum sem skipta engu máli. Þú skilar samviskusamlega þínum 37,5 stundum á viku en streitan magnast bara og annar hver samstarfsfélagi þinn er að díla við kulnun.

Til hvers? Gæti verið að stór hluti vinnunnar þinnar sé kjaftæði sem engin leið er til að réttlæta?

Því verður þú að svara, kæri hlustandi. Því þegar allt kemur til alls þá veist þú manna best hvort vinnan þín er kjaftæði eða ekki, það veit enginn betur en þú hvað þú gerir í vinnunni. Ef þú tengir við eitthvað af þessu, finnst eins og of mikill tími fari í að díla við vandamál sem ætti að vera löngu búið að leysa, að þú eyðir of miklum tíma í að fylla út eyðublöð í stað þess að sinna raunverulegum verkefnum, ef þér finnst eins og þú gerir í raun ekkert gagn, þá eru allar líkur á að þú hafir rétt fyrir þér og að starfið þitt sé kjaftæði. 

Þú lítur upp úr fríblaðinu sem þú greipst á lestarstöðinni og við þér blasa þessi orð:

„Það er líkt og það sé einhver þarna úti sem finnur upp á tilgangslausum störfum til þess eins að halda okkur öllum vinnandi.“

Hvað ætlar þú að gera í því?
 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Hin fullkomna ferilskrá