Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Allir fangaklefar fullir eftir nóttina

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Mjög annasamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og ekki tókst að rita dagbók lögreglu fyrr í dag vegna þessa. Í henni segir að talsvert hafi verið um ölvunartilkynningar, hávaðatilkynningar og slagsmál með þeim afleiðingum að allir fangaklefar fylltust. Einnig var mikið um að fólk væri að aka bifreiðum undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis.

Hópslagsmál og innbrot

Lögreglu bárust tilkynningar um hópslagsmál í tvígang, í öðru tilvikinu var tilkynnt um að einn einstaklingur væri vopnaður hníf og annar hamri. Þá var jafnframt tilkynnt um átök í bifreið á ferð. 

Tilkynnt var um þjófnað í verslun og innbrot í ónefnt fyrirtæki. Býsna mikið var um innbrot í bifreiðar við fyrirtæki í miðborginni þar sem rúður voru brotnar og munum stolið.  

Hoppaði fyrir bíla í von um að fá far

Í gærkvöld var tilkynnt um einstakling í annarlegu ástandi að ógna vegfarendum. Hann streittist á móti lögreglu og sparkaði í lögreglumann við handtöku. Einnig var tilkynnt um æstan einstakling með golfkylfu í miðborg Reykjavíkur í nótt. Hann gerði tilraun til þess að flýja vettvang. Lögreglu var jafnframt gert viðvart um ölvaðan einstakling snemma morguns að hoppa fyrir bíla en hann var að leita sér að fari heim. Lögregla útvegaði honum leigubíl. 

Yfir hundrað útköll hjá sjúkraflutningamönnum

Greint var frá því fyrr í dag að mjög annasamt hefði verið hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í nótt en sjúkraflutningamenn sinntu yfir hundrað útköllum. Einn sjúkrabíll skemmdist þegar glasi var kastað í hann.