Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Álag á slökkviliðinu: „Allt vitlaust í bænum“

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði krossinn
Varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir að álagið vegna skemmtanahalds í miðborg Reykjavíkur í nótt hafi verið mjög mikið.

Mikill mannfjöldi var í miðborg Reykjavíkur í nótt og mikið um pústra og almenna ölvun.

„Það var bara allt vitlaust í bænum og langt fram eftir nóttu,“ segir Stefán Kristinsson varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

„Þetta var þung nótt hjá okkur og milli fimmtíu og sextíu sjúkraflutningar í nótt sem er bara mjög mikið fyrir næturvakt,“ segir Stefán.

Einn sjúkrabíll er ónothæfur eftir að flösku var kastað í rúðu bílsins. Flöskunni var kastað úr mannþvögu og ekki er vitað hver gerandinn er.

Stefán segir að engin hætta hafi þó skapast út af álagi. Frá því í gærmorgun hefur slökkviliðið sinnt 122 sjúkraflutningum.

„Fyrir utan það þá er líka búið að vera álag í Covid-flutningum undanfarna sólarhringa. Við erum búin að taka yfir 40 Covid-sjúkraflutninga á síðustu tveimur sólarhringum,“ segir Stefán.