Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Úrskurðir sýna af hverju Íslendingurinn lá undir grun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsréttur hefur birt um 20 gæsluvarðhalds- og farbannsúrskurði sem allir tengjast morðinu á Armando Beqiri í Rauðagerði um miðjan febrúar. Úrskurðirnir varpa nýju ljósi á hversu umfangsmikil rannsókn lögreglu var og hvernig hún beindist annars vegar að þeim sem hafa verið ákærðir fyrir morðið og svo hvort ódæðið tengdist Íslendingi sem hefur verið sagður umsvifamikill í undirheimum Reykjavíkur.

Rannsókn lögreglu á morðinu er ein sú umfangsmesta í Íslandssögunni. Um tíma sátu níu í gæsluvarðhaldi og fjórtán höfðu réttarstöðu sakbornings.

Landsréttur birti alla úrskurði

Daginn sem ákæran í málinu var þingfest óskaði fréttastofa eftir öllum gæsluvarðhaldsúrskurðum frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeir bárust 15. júní en nánast allar upplýsingar höfðu verið fjarlægðar.

Landsréttur virðist síðan nýverið hafa birt alla gæsluvarðhalds- og farbannúrskurði sem komu til kasta dómstólsins, ekki aðeins yfir þeim sem hafa verið ákærðir heldur einnig þeim lágu um tíma undir grun.

Úrskurðirnir sýna að rannsókn lögreglu var í rauninni tvíþætt og til að byrja með beindust spjótin aðallega að Íslendingi sem hefur í fjölmiðlum verið sagður umfangsmikill í undirheimum Íslands. 

Íslendingurinn var sagður óttast Armando

Tveir gæsluvarðhaldsúrskurðir yfir honum eru birtir á vef Landsréttar. 

Í úrskurði sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. febrúar kemur fram að lögregla hafi haft upplýsingar um að menn á vegum Íslendingsins hafi komið að morðinu. Þeir hefðu verið „fluttir inn“ til að passa hann af ótta hans við Armando Beqiri. Í úrskurðinum sagðist lögreglan hafa upplýsingar um að Íslendingurinn teldi að Armando hefðu verið boðnir miklir fjármunir fyrir að drepa hann.

Upplýsingagjafi lögreglu fullyrti jafnframt að Íslendingurinn ætti skammbyssu sem væri 12 skota, græn og gyllt með hljóðdeyfi.

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur jafnframt fram að lögreglan hafi rætt við fjölda fólks sem tengdist Armando sem tryði því að Íslendingurinn og þrír vitorðsmenn hans ættu aðild að morðinu.

Bara „vinir að líta eftir vinum“

Viku seinna var kveðinn upp annar gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Íslendingnum og þar kvað við sama tón. Upplýsingagjafi lögreglu sagðist vera þess fullviss að morðið á Armando væri tengt Íslendingnum og mönnum sem hann hefði flutt til landsins. Þeir hefðu átt að passa Íslendinginn af ótta hans við Armando. 

Íslendingurinn neitaði ávallt sök í yfirheyrslum hjá lögreglu og hann er ekki einn fjögurra sem var ákærður fyrir morðið. Hann sagðist heldur ekki eiga skotvopn né hafa aðgang að slíku vopni. Hann vildi heldur ekki kannast við að hleypt hefði úr byssu í partýi hjá honum um miðjan janúar eins og lögreglan hafði heimildir fyrir. 

Steinbergur Finnbogason, sem var lögmaður Íslendingsins þar til lögregla fékk skipun hans fellda úr gildi, hefur lýst því yfir að Íslendingurinn ætli að leita réttar síns vegna framgöngu lögreglu í málinu. „Umbjóðandi minn var með fjölskyldu sinni úti á landi þegar atburðurinn átti sér stað og kom þar einfaldlega hvergi nærri.“

Mennirnir, sem Íslendingurinn var sagður hafa flutt til landsins til að gæta öryggis síns og fjölskyldu sinnar, sátu einnig um tíma í gæsluvarðhaldi. Þeir vildu ekki fullyrða að þeir hefðu komið til Íslands í þeim eina tilgangi að vera lífverðir. Einn þeirra orðaði það svo í skýrslutöku hjá lögreglu að þeir væru „vinir að líta eftir vinum“.

Sá sem var handtekinn fyrstur í málinu vildi hreinlega ekki kannast við að hann ætti að vera lífvörður Íslendingsins. Hann sagðist ekki vera með bakgrunn í þess háttar öryggisgæslu og hefði til að mynda aðeins verið í hernum í heimalandi sínu í hálft ár. Þar hefði hann vissulega fengið grunnkennslu á skotvopn en hann hefði ekki haldið henni við. 

Snemma vitað að Angjelin væri viðriðinn morðið 

Lögreglan virðist fljótlega hafa áttað sig á að Angjelin Sterkaj, sem hefur játað að hafa skotið Armando til bana, væri viðriðinn morðið. Hann var í samskiptum við Íslendinginn og aðra sakborninga í málinu um svipað leyti og morðið var framið. Íslendingurinn var til að mynda skráður fyrir bílaleigubíl sem sást á vettvangi morðsins.

Í fyrsta gæsluvarðhaldsúrskurðinum yfir Angelijn kemur fram að tveimur dögum fyrir morðið sagðist hann hafa farið heim til Armando og sótt þangað ryksugu. Hann sagðist hafa þekkt þekkt Armando í nokkur ár, þeir hefðu unnið saman og ættu ekki í neinum deilum.

Gögn sem lögregla hafði aflað sér drógu upp aðra mynd. Í íbúð Angjelins sáust ummerki eftir notkun skotvopns og því til viðbótar hafði lögregla upplýsingar um ummæli sem hann lét falla og þau bentu til þess að Angjelin vildi landa sinn feigan.

Sagðist ætla að „fylla maga“ Armando af byssukúlum

Gæsluvarðhaldsúrskurður sem kveðinn var upp í héraðsdómi 3. mars varpar enn frekara ljósi á illindin milli þeirra tveggja. 

Þar kemur fram að Angjelin og Armando hafi rifist heiftarlega tveimur dögum fyrir morðið þar sem Armando taldi Angjelin hafa flutt inn menn til að vinna sér mein. Angjelin, sem breytti ítrekað framburði sínum hjá lögreglu, viðurkenndi að hafa í þessu rifrildi hótað að drepa Armando og sagt við hann að þegar þeir hittust næst myndi hann „fylla maga Armando af byssukúlum“. 

Hann gekkst jafnframt við því að hafa átt skammbyssu með hljóðdeyfi en hélt því fram að henni hefði verið stolið hálfum mánuði fyrir ódæðið. Að öðru leyti vildi hann lítið tjá sig um skotvopn við lögreglu.

Fjórir ákærðir fyrir morð

Héraðssaksóknari gaf í maí út ákæru á hendur fjórum sakborningum; þremur karlmönnum og einni konu. Þau eru öll ákærð fyrir morð. Angjelin er sá eini sem hefur játað og situr í gæsluvarðhaldi. Tveir sakborningar eru í farbanni en einn er að afplána eftirstöðvar refsingar vegna fyrri dóms.

Ekkja Armando og foreldrar hans krefjast þess að sakborningarnir fjórir verði dæmdir til að greiða þeim um 70 milljónir króna.