Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þjóðnýting Cabo Verde kom verulega á óvart

17.07.2021 - 19:40
Mynd: RÚV / RÚV
Flugfélagið Cabo Verde á Grænhöfðaeyjum, sem dótturfélag Icelandair group átti meirihluta í, hefur verið þjóðnýtt af þarlendum stjórnvöldum. Stjórnarformaður Cabo Verde kveðst sjá eftir áformunum á Grænhöfðaeyjum.

Loftleiðir, dótturfélag Icelandair group keypti í lok árs 2018 51 prósenta hlut í flugfélaginu Cabo Verde Airlines í kjölfar þess að flugfélagið var einkavætt. Flugfélagið hafði verið ríkisflugfélag frá árinu 1975 þegar Grænhöfðaeyjar öðluðust sjálfstæði.

Kom verulega á óvart

Við kaupin var nýtt félag stofnað utan um fjárfestinguna, Loftleiðir Cabo verde sem var í 70 prósent eigu Loftleiða, og 30 prósent í eigu annara fjárfesta, meðal annars Björgólfs Jóhannssonar. Cabo Verde átti 2 Boeing vélar og leigði einnig vélar frá Icelandair. Um 800 starfsmenn störfuðu hjá félaginu. Í mars gerðu stjórnvöld á eyjunum samkomulag  við félagið um endurreisn þess. Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair group var stjórnarformaður Cabo Verde airlines. 

„Þetta kom okkur verulega á óvart ekki síst af því að við höfðum staðið við allt sem var upplistað í þessum samningi, en ríkisvaldið gat því miður ekki staðið við þau ákvæði sem þeir áttu að uppfylla. Þetta kom okkur verulega á óvart að þeir skyldu fara þessa leið og við töldum að við værum með business plan og framtíðarhorfur fyrir félagið á góðum stað. Þetta kom okkur verulega á óvart en ég vona að þeir viti hvað þeir eru að gera og nái að efla félagið í framtíðinni,“ segir Björgólfur.

Hver höndin upp á móti annarri

Ulisses Correia e Silva forsætisráðherra Grænhöfðaeyja sagði í júní að stjórnendur flugfélagsins hefðu ekki staðið sína plikt í faraldrinum til að vernda störf landsmanna og því yrði leitast við að þjóðnýta félagið. Björgólfur segir það ekki vera rétt. Stjórnvöld hafi ekki staðið við fjárhagsleg skilyrði samningsins sem bæði fjármálaráðherra og samgönguráðherra skrifuðu undir.  

„Þetta gerir það að verkum að þær hugmyndir sem við vorum með um þennan rekstur í samvinnu við heimamenn að hann gengur ekki eftir og okkur þykir það mjög miður að það skuli ekki ganga eftir því við sáum góð tækifæri í þessum rekstri að tengja saman 4 heimsálfur í gegnum Cabo Verde. Þannig að það félag einfaldlega leggur upp laupana.“ segir Björgólfur.

Ríkið greiðir félaginu fyrir þjóðnýtinguna. Það á eftir að koma í ljós hver sú upphæð verður. Fjárhagslegt tjón segir Björgólfur að sé óverulegt fyrir aðra starfsemi Icelandair group. 

Áréttað skal að Björgólfur var ranglega titlaður sem forstjóri Icelandair group í sjónvarpsfréttum, en ekki stjórnarformaður Cabo Verde. Beðist er velvirðingar á þeim mistökum.