Keyrir hringinn á gamalli rússneskri dráttarvél

Mynd: RÚV / Hjalti Stefánsson

Keyrir hringinn á gamalli rússneskri dráttarvél

17.07.2021 - 21:22

Höfundar

Flestir sem halda í ferðalag um landið ákveða hvenær þeir ætla að koma heim aftur. Það á ekki við um fyrrum bónda í Bárðardal sem nú ferðast um landið á ríflega fimmtíu ára gamalli rússneskri dráttarvél.  

,,Ég er að fara hringinn um landið á gömlum Belarus traktor frá 1967. Ég er búinn að vera að dunda í þessari vél í ein fjögur ár," segir Eiríkur Sigfússon, en frá því hann eignaðist þennan gamla Rússa hefur hann langað til að ferðast á honum hringinn um landið.

,,Ég er að keyra svona á 26-27 kílómetrum"

Hann fór frá Sandgerði tíunda júlí - kom til Egilsstaða á fimmtudag og hringurinn því rúmlega hálfnaður. Og hann fer ekki hratt yfir enda fararskjótinn ekki beint hraðskreiður með 40 hestafla loftkældum mótor.  ,,Ég er að keyra svona á 26-27 kílómetrum, ég er með GPS tæki í henni. Hún fer kannski niður í 25 upp brekkur."

Segir fólk sýna sér þolinmæði í umferðinni

Ferðin gangi samt ótrúlega vel í þungri sumarumferðinni. ,,Það hefur nú bara gengið ágætlega. Ég er náttúrulega með öll ljós, stefnuljós til að hleypa framúr og blikkljós á toppnum, þannig að það er allt öryggi í lagi. Og ég hef nokkrum sinnum bara farið út í kant og stoppað ef komin er löng bílalest."
,,Fólk er ekkert pirrað á þér?"
,,Nei ég allavega hef ekki fengið puttann ennþá."

Hefur nægan tíma og enga ferðaáætlun

Annars segir hann enga ferðaáætlun til. Hann hafi nægan tíma og ekkert ákveðið hvenær hann loki hringnum. ,,Ég er náttúrulega hættur að vinna og hef nógan tíma í þetta. Er með A-hýsið bara í eftirdragi og sef í því á nóttunni. Tek bara einn dag í einu."