Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fleiri en 1300 enn saknað á flóðasvæðum

17.07.2021 - 12:13
epa09350042 A resident walks among the debris after heavy rains caused flooding in Pepinster, Belgium, 17 July 2021. Heavy rains have caused widespread damage and flooding in parts of Belgium.  EPA-EFE/JULIEN WARNAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hið minnsta 150 eru látin og fleiri en 1300 er enn saknað í miklum flóðum í Þýskalandi og Belgíu. Yfirvöld í vesturhluta Þýskalands eru gagnrýnd fyrir að hafa ekki brugðist fyrr við viðvörunum veðurfræðinga.

Verslunareigendur í Belgíu eru nú víða í óðaönn að reyna að ausa vatni úr verslunum sínum. Þeirra á meðal André Cloeck en í skóbúð hans náði vatnið um 1,2 metrum. 

„Ég á tvö ár í eftirlaunaaldurinn og nú missti ég allt, mér líður hræðilega,“ segir skóbúðaeigandinn Cloeck.

Hann er víst sannarlega ekki eini íbúi Belgíu, Þýskalands, Sviss, Lúxembúrg eða Hollands sem berst í bökkum vegna gríðarlegra flóða. 

Ástandið er verst í vesturhluta Þýskalands og í Belgíu. Þar hafa fleiri en 150 látist vegna flóðanna. Þeirra á meðal eru 12 íbúar á sambýli fyrir fólk með fötlun í Rínarlöndum. Enn er ekki vitað um afdrif um 1300 manns á flóðasvæðunum. 

Björgunarstarf er erfitt í þessu ástandi, vegir hafa víða eyðilagst og símasamband liggur víða niðri. Fleiri en 100 þúsund heimili eru nú án rafmagns. 

Í Belgíu eru hið minnsta 20 látin. Þriðjudaginn 20. júlí verður þjóðarsorg þar í landi, tilkynnti forsætisráðherrann Alexander De Croo í gær. 

Flóðaeftirlitsstofnun Evrópu gaf út flóðaviðvörun fyrr í vikunni. Því spyrja mörg sig hvers vegna ekki hafi verið gripið til rýmingar og annarra forvarna fyrr. Veðurstofa Þýskalands segist hafa komið viðvöruninni áfram til staðaryfirvalda, sem bera ábyrgð á viðbrögðum við yfirvofandi náttúruhamförum.