Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aukið álag á Covid-göngudeildinni

17.07.2021 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Álagið á Covid-göngudeild Landspítalans hefur aukist mikið síðustu daga eftir að innanlandssmitum tók að fjölga á ný. Yfirmaður deildarinnar telur þó ekki ástæðu til að herða sóttvarnaraðgerðir. Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík er við það að fyllast.

Alls eru 97 í einangrun með Covid 19 hér á landi og um 400 í sóttkví. Enginn hefur verið lagður inn á spítala en smitum hefur farið fjölgandi á síðustu dögum.

„Álagið á Covid-göngudeildina hefur verið að aukast mjög síðustu daga. Því við gerðum ekki ráð fyrir þessu þó svo við ættum hugsanlega von á því að það myndu greinast smit. En þetta er talsverður fjöldi þessi hópsýking sem hefur verið í gangi hérna síðustu daga og það verður fróðlegt að sjá hvernig því reiðir af. Vonandi náum við tökum á þessu sem fyrst. Það er mikilvægt að ná stjórn á þessu. Við viljum ekki að þessa veira breiðist út í samfélagið,“ segir Runólfur Pálsson yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans.

Hann segir að enginn sé þó alvarlega veikur. Flestir séu fullbólusettir og á aldrinum 20 til 50 ára.

„Langflestir eru með mjög væg eða engin einkenni en það eru nokkrir sem eru með umtalsverð einkenni en ekki alvarleg þó. Og við höfum þurft að kalla nokkra inn til skoðunar hérna á Covid-göngudeildinni,“ segir Runólfur.

Hann segir mikilvægt að koma í veg fyrir útbreiðslu smita til að vernda viðkvæma hópa. Ekki sé þó tímabært að grípa aftur til sóttvarnaaðgerða innanlands.

„Mér finnst ekki ástæða til þess eins og staðan núna. Mér finnst að við getum reitt okkur mjög á að fólk sýni aðgát og sinni sínum persónubundnu smitvörnum. Ég held að það hafi skipt miklu máli allan tímann. Að fólk hefur sinnt því vel þegar kallað hefur verið eftir því. Og ég held að þróunin síðustu daga gefi einfaldlega til kynna að veiran sé í samfélaginu og þá þarf fólk að gæta að sér,“ segir Runólfur.

Farsóttarhúsið að fyllast

Alls eru 38 í einangrun í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg í Reykjavík. Þar af 11 Íslendingar.

Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður farsóttarhússins segir að ástandið nú sé svipað eins og þegar þriðja bylgjan skall á í haust. Farsóttarhúsið sé við það að fyllast og til stendur að taka nýtt rými í notkun á næstu dögum.

„Staðan er að þyngjast. Það hefur ekki verið svo mikið hjá okkur í einangrun síðan í október. Eins og fólk man kannski þá var október erfiður mánuður. Það sem hjálpar okkur núna er að þetta eru bólusettir einstaklingar vel flestir. Þannig að einkennin eru ekki mikil, ekki ennþá en þó töluverð hjá sumum gestum,“ segir Gylfi Þór.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV