Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ætlaði ekki að trúa því sem varð á flóðasvæðunum

17.07.2021 - 19:15
Mynd: RÚV/Sturla Holm Skúlason / RÚV/Sturla Holm Skúlason
Fleiri en 170 eru látin eftir flóð í Þýskalandi og Belgíu og hundraða er enn saknað. Þótt veðurspáin hafi verið slæm ætlaði maður ekki að trúa því sem síðar varð, segir íslenskur maður sem býr á flóðasvæðinu.

„Þetta byrjaði snemma í vikunni og spáin var hrikaleg en maður ætlaði ekki að trúa því sem í rauninni varð,“ segir Hrólfur Sæmundsson, óperusöngvari. Hann býr við flóðasvæðin í Þýskalandi en kom hingað til lands að utan í dag. 

„Á leiðinni upp á flugvöll sá maður heilu skóglendin undir vatni. Þetta var alveg ótrúlegt. Þeir segja að þetta séu mestu rigningar á þessu svæði í hundrað ár. Svona rigningar þekkir maður ekkert hér. Fólk sem hefur farið erlendis þekkir svona hitaskúra, þegar í fimm mínútur er eins og helt væri úr fötu. Þetta var bara þannig í þrjá daga stanslaust og ég hef á minni ævi aldrei séð aðrar eins rigningar. “

Það styttir alltaf upp að lokum, veðrið er nú með miklum ágætum, en eftir stendur ógurleg eyðilegging. 

„Nærtækt dæmi hjá mér, tengdafaðir minn er með rannsóknarstofu í næsta bæ. Þar var kjallarinn alveg fullur upp í rjáfur, þrír metrar eða eitthvað svoleiðis. Og svo á næstu hæð fyrir ofan þar sem rannsóknarstofan er og öll tækin, skjalasafn og svoleiðis, þar var svona einn og hálfur meter. Þetta er rosalegt,“ segir Hrólfur. 

Angela Merkel, kanslari Þýskalands ætlar að gera sér ferð að flóðasvæðunum á morgun. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, heimsótti Rochefort í Belgíu í dag. 

Í sjónvarpsfréttinni í spilaranum hér fyrir ofan má jafnframt sjá viðtöl við íbúa flóðasvæðana og myndir frá björgunaraðgerðum.