Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tvo skammta þarf til að verjast delta-afbrigðinu

epa09291815 A health worker shows a Pfizer vaccine during a new vaccination day against covid-19 in Tegucigalpa, Honduras, 21 June 2021. Honduras resumes vaccination against covid-19 after receiving more than 212,000 doses of Pfizer donated under the Covax mechanism, promoted by the World Health Organization (WHO).  EPA-EFE/Gustavo Amador
 Mynd: EPA
Lyfjastofnun og sóttvarnastofnun Evrópu hvetja lönd til að hraða bólusetningum eins og kostur er til að koma í veg fyrir smit og að kórónuveiran þróist áfram í enn önnur afbrigði. Delta-afbrigðið er talið 40 til 60 prósent meira smitandi en alpha-afbrigðið sem greindist fyrst Í Bretlandi. Sóttvarnastofnun Evrópu reiknar með að 90 prósent allra smita í Evrópu verði af delta-afbrigðinu fyrir lok ágúst.

Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunar Íslands. Rúmlega 85 prósent þeirra sem til stendur að bólusetja hér á landi eru fullbólusettir eða 68 prósent allra Íslendinga.

Aðeins á eftir að klára bólusetningu hjá 15 þúsund manns. Rúmlega fimm þúsund eiga eftir að fá seinni skammtinn af AstraZeneca og tæplega tíu þúsund af bóluefni Pfizer.

Í sameiginlegri yfirlýsingu Lyfjastofnunar og sóttvarnastofnunar Evrópu segir að bráðabirgðagögn bendi til þess að tvo skammta af bóluefnum Pfizer, Spikevax (áður Moderna) eða AstraZeneca þurfi til að veita fullnægjandi vörn gegn delta-afbrigðinu.

Hafa ber í huga að bóluefnið nær ekki fullri virkni fyrr en tveimur til þremur vikum eftir seinni skammtinn.

Stofnanirnar tvær eru ekki reiðubúnar til að segja hvort og þá hvenær verði þörf á endurbólusetningu með þriðja skammtinum. Of snemmt sé segja til um það á þessari stundu þar sem skortur sé á gögnum og þekkingu á hversu lengi vörnin af bóluefnum endist.

Lyfjafyrirtækið Pfizer hefur boðað þriðja skammtinn og ætlar að sækja um leyfi fyrir honum í Bandaríkjunum.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í hádegisfréttum RÚV að herða þyrfti aðgerðir á landamærunum. Ljóst væri af smittölum síðustu daga að veiran hefði komist inn í landið gegnum landamærin. „Ég held að það sé brýnt að reyna að stemma stigu við þessu flæði veirunnar inn í landið. Það eru nokkrar leiðir til þess sem eru ekki of íþyngjandi fyrir ferðamenn en þó alltaf eitthvað. Það er bara í vinnslu.“ 

Þórólfur sagði jafnframt að alltaf væri hætta á að fullbólusettir gætu lent illa í kórónuveirunni. „Fullbólusett fólk getur smitast, fullbólusett fólk getur smitað aðra, og fullbólusett fólk getur veikst alvarlega.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV