Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tekist á um upplýsingaóreiðu í „faraldri óbólusettra“

epa09227800 US President Joe Biden talks to the media before taking off in Marine One on the Ellipse at the White House in Washington, DC, USA, 25 May 2021. US President Joe Biden Departs White House for Delaware for a few hours Tuesday night.  EPA-EFE/TASOS KATOPODIS / POOL
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - UPI
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir fólk hafa látist vegna upplýsingaóreiðu um COVID-19 og bóluefni á samfélagsmiðlum. Þeir þurfi að girða sig í brók og fjarlægja slíkt. Facebook vísar gagnrýni forsetans á bug og telur sig hafa bjargað mannslífum með því að halda staðreyndum á lofti.

„Þetta er að drepa fólk. Eini faraldurinn núna er hjá fólki sem ekki er bólusett,“ sagði Biden við fréttamenn og vísaði þar til falsfrétta á samfélagsmiðlum. Biden og ríkisstjórn hans vill að þeir geri betur og fjarlægi allt sem er „upplýsingaóreiða um bólusetningar og COVID-19.“   

Heilbrigðisyfirvöld vestanhafs segja að fjölgun dauðsfalla og veikinda af völdum COVID-19 mega nánast eingöngu rekja til þeirra sem ekki hafa látið bólusetja sig.  „ Skilaboðin eru skýr - faraldurinn núna er faraldur óbólusettra,“ segir Rochelle Walensky, forstjóri bandarísku sóttvarnastofnunarinnar.

Í umfjöllun AFP-fréttastofunnar kemur fram að þeir sem eru óbólusettir treysti ekki bóluefnunum heldur trúi frekar falsfréttum á samfélagsmiðlum. Þá eru þeir til sem halda því fram að bóluefnin geri stjórnvöldum kleift að öðlast vald yfir fólki. 

Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, tók málið fyrir á fundi með fréttamönnum og beindi spjótum sínum sérstaklega að Facebook. „Það eru í kringum tólf manns sem búa til 65 prósent af öllum færslum með misvísandi upplýsingum um bóluefni.  Allir eru virkir á Facebook þrátt fyrir að sumir þeirra hafi verið bannaðir á öðrum miðlum.“

Ekki fékkst uppgefið hverjir þessir tólf væru.

Facebook vísaði gagnrýninni á bug og benti á 3,3 milljónir Bandaríkjamanna hefðu nýtt sér miðilinn til að sjá hvar þeir gætu látið bólusetja sig. Hvergi hefðu jafnmargir skoðað staðfestar upplýsingar um COVID-19 og bóluefni og á Facebook. 

Fyrr í dag tilkynnti samfélagsmiðilinn engu að síður að hann ætlaði að grípa til aðgerða gegn upplýsingaóreiðu og fjarlægði meðal annars 18 milljónir færslna með misvísandi upplýsingum um COVID-19. 

33 þúsund ný smit greindust í Bandaríkjunum síðasta sólarhringinn og nærri 2.800 hafa verið lagðir inn á sjúkrahús dag hvern síðustu sjö daga. 

Jeff Zientz, sérfræðingur hjá Hvíta húsinu, segir að faraldurinn sé keyrður áfram af delta-afbrigði kórónuveirunnar.  Það er talið vera 40 til 60 prósent meira smitandi en alpha-afbrigðið. Sóttvarnastofnun Evrópu og Lyfjastofnun Evrópu sögðu í sameiginlegri yfirlýsingu að tvo skammta af bóluefni þyrfti til að veita fullnægjandi vörn gegn afbrigðinu.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV