Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skemmtilega skerandi hávaði

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir - 2021

Skemmtilega skerandi hávaði

16.07.2021 - 14:03

Höfundar

Þögn er ný plata frá þungarokkurunum í hljómsveitinni Dimmu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Dimma hefur um langa hríð verið eins konar þungarokkssveit alþýðunnar. Vinsældir hennar orsakast af því að hún nær að haka í öll réttu boxin að því leytinu til. Geirdalsbræður eru rokkið holdi klætt og hafa verið það í áratugi, Stefán Jakobsson söngvari er svo með rödd og sviðsframkomu sem hæfir efninu. Trymblar sömuleiðis og nú er það Egill Örn Rafnsson sem sér um þann þátt. Ímyndarvinna, t.d. í plötuumslögum, styður við þetta allt saman og tónlistin svo náttúrulega grunnstoðin. Nægilega þung, nægilega melódísk, með vísanir í klassískt þungarokk að hætti Dio og Aerosmith á meðan að þyngri, nútímalegri afbrigði fá vottun líka.

Þögn kemur í kjölfar hinna vel heppnuðu Eldrauna (2017) og var upptökustjórn í höndum Silla Geirdal, Ingós Geirdal og Sveins M. Jónssonar, sem hljóðblandaði einnig plötuna. Ólöf Erla Einarsdóttir hjá Svart sá um hönnun fyrir geisladisk og vínylútgáfu.

Dimmutónninn er þarna, þungur og hljómfagur, en áferðin dálítið önnur en á fyrri verkum. Eldraunir var t.d. vel þung á köflum en hér hleypa menn hressilega á ljósið í völdum lögum. „Andvaka“, sem skartar Guðrúnu Árnýju sem gesti, er t.d. skammlaus, Evróvisjóntæk ballaða og hér er líka að finna Evróvisjónlag Dimmu, „Almyrkvi“ (merkt sem „original version“). Rokkið fær svo að duna af krafti mestallan tímann, engar áhyggjur, en þessir ljósu fletir brjóta flæðið skynsamlega upp og sýna fram á að þessir menn kunna margt og mikið. „Nætursól“ opnar t.d. plötuna, flott og kraftmikið riff og skemmtilegur tvígítar að hætti Maiden eftir miðbikið. Það er gaman að hlusta á – og fylgjast með – töframanninum Ingó að störfum. Titillagið ber með sér níðþungt skriðdrekariff, minnir mig á XIII, sveit Halls Ingólfssonar sem lék í eina tíð með Ingó í Gypsy. „Skuggamyndir“ ber og með sér þennan tíunda áratugar drunga, „industrial“ bragur yfir í blábyrjun (NIN, Rammstein og smá Pantera-sveifla meira að segja). „Minn þyrnikrans“ er eftirtektarvert, sérstaklega fyrir texta. Ég túlka hann sem ljúfsáran óð til Svarta hundsins, þunglyndisins sem herjar getur á okkur öll í alls kyns mæli.

Samantekið er þetta firnasterkt verk og öruggt. Egill trommar sig vel inn, hljómur allur kraftmikill og djúpur og ekki þarf að fjölyrða um frammistöðu söngvara sem hljóðfæraleikara. Traustur pakki frá þessari þaulreyndu og tilkeyrðu sveit og fengur mikill fyrir aðdáendur, það er næsta víst.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Skuggamyndir Valborgar

Menningarefni

Krómhúðað rökkurpopp

Menningarefni

Vitskert veröld