Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segja opnun Englands „ógn við umheiminn“

epa09238943 Young people receive Covid-19 vaccination jabs at Twickenham rugby stadium in London, Britain, 31 May 2021. The UK government is pushing ahead with its vaccination program in its fight against the Indian variant. Twickenham rugby stadium has become a mass vaccination centre offering first jabs to everyone over thirty years of age. The UK government plans to lift lockdown restrictions completely 21 June.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Vísindamenn segja að ef yfirvöld á Bretlandi standi við þau fyrirheit að afnema allar sóttvarnaaðgerðir á mánudag sé slíkt „ógn við umheiminn“. Tilraunin sé „siðferðislega röng“ og geti orðið til þess að ný afbrigði, ónæm fyrir bóluefnum, dreifist um heimsbyggðina. Nærri 52 þúsund ný smit greindust á Bretlandi síðasta sólarhringinn og landlæknir Englands óttast að álagið á heilbrigðiskerfið næstu vikur geti orðið „hættulegt“.

Allar sóttvarnaaðgerðir á Englandi verða felldar úr gildi á mánudag þrátt fyrir að delta-afbrigði kórónuveirunnar breiðist þar út á ógnarhraða.   

Fram kemur á vef Guardian að hópur alþjóðlegra vísindamanna hafi komið saman til neyðarfundar þar sem skorað var á bresk stjórnvöld að endurskoða þessi áform sín.

Michael Baker, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar á Nýja Sjálandi segist einfaldlega hissa. „Bretland hefur verið leiðarljós þegar kemur að vísindalegri nálgun en nú ætla þeir ekki einu sinni að fylgja einföldustu viðmiðum um lýðheilsu,“ hefur Guardian eftir Baker.

José Martin-Moreno, prófessor við háskólann í Valencia, segist ekki skilja hvers vegna bresk stjórnvöld séu að þessu , ekki síst í ljósi þeirrar vísindalegu þekkingar sem liggi fyrir.  Christina Pagel, enskur prófessor, segir stefnu Bretlands ekki eingöngu hafa áhrif á Bretland heldur allan heiminn. 

Meira en 1.200 vísindamenn hafa skrifað undir áskorun sem birtist í vísindaritinu Lancet.

Þar er varað við því að áform bresku ríkisstjórnarinnar geti leitt til þess að ný afbrigði myndist sem séu ónæm fyrir bóluefnum.  Þar sem England sé miðstöð millilandaflugs eigi ný afbrigði auðvelt með að dreifast um alla heimsbyggðina. Skorað er á stjórnvöld að falla frá þessari „hættulegu og siðferðislega röngu tilraun.“

Chris Whitty, landlæknir Englands, sagði í gær að álagið á heilbrigðiskerfið gæti orðið hættulegt á næstu vikum. COVID væri sannarlega ekki búið og því ætti fólk að fara að öllu með gát þegar sóttvarnaaðgerðir yrðu felldar úr gildi.

Nærri 52 þúsund smit greindust síðasta sólarhringinn á Bretlandi og Sajid Javid, heilbrigðisráðherra landsins, telur ekki ólíklegt að þau geti orðið 100 þúsund á dag þegar liður á sumarið. 

Fram kemur á vef BBC að þessi mikla fjölgun smita hafi orðið þess valdandi að sífellt fleiri eru beðnir um að fara í sóttkví eftir að hafa fengið tilkynningu þess efnis í COVID-appið.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV