Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Miklar framkvæmdir framundan

16.07.2021 - 11:31
Mynd: Ólafur Göran Gros Ólafsson / Rúv
Eftir miklar vegaskemmdir í vatnavöxtunum á Norðurlandi um mánaðamótin er töluvert viðgerðarstarf enn eftir. Í Fnjóskadal eru viðgerðir langt komnar en við Þverá í Eyjafirði urðu skemmdir það miklar að nokkra mánuði mun taka að gera við veginn.

Miklar framkvæmdir framundan

Á Eyjafjarðarbraut eystri fór í sundur vegur yfir ræsi í ánni Þverá en þar eru miklar framkvæmdir framundan.

Heimir Gunnarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni segir viðgerðir ganga ágætlega. „Við byrjuðum strax og hægt var þegar flóðið hafði minnkað í ánni.“ 

Þurfa að leiða Þverá fram hjá stokknum 

Fyrir hálfum mánuði var vegur yfir Þverá  í ræsi yfir ánni sem er nú búið að moka að mestu í burtu. Það er gert til að athuga skemmdir sem mögulega hafa orðið á steypustokknum, sem Þverá rennur í gegnum, og þá þarf að leiða ána fram hjá stokknum til að hægt sé að kanna ástand hans. 

„Við þurfum að fylla undir stokkinn væntanlega. Þverbitar í stokknum hafa skemmst og vatn náð að flæða undir og draga með sér efni úr fyllingunni.“

Tímaramminn óljós

Meðan á viðgerðum stendur er umferð beint á gamla einbreiða brú sem er fyrir ofan viðgerðarsvæðið. Sú tekur við allri almennri umferð en ekki stærstu gerð flutninga- og vörubíla.

Heimir segir að reynt sé að vinna að viðgerð eins hratt og mögulegt er. „Þetta er ekki einfalt verk og mjög stórt. Það er nú þegar búið að flytja sex þúsund og eitthvað rúmmetra úr fyllingunni. Síðan á eftir að laga stokkinn og jafnvel steypa helling hér í kring. Þetta tekur tíma,“ segir Heimir.

Fært inn í Reyki í Fnjóskadal

Viðgerðir við veginn fram í Reyki í Fnjóskadal eru hins vegar mun lengra komnar og segir Heimir vegina í raun tilbúna. „Við eigum þó eftir að verja vegina fyrir ánni með grjóti sem er tekið upp í Fljótsheiði. Því verki lýkur um miðjan ágúst,“ segir hann.

Fordæmalausar hamfarir

Heimir segist ekki hafa upplifað álíka hamfarir á sínum ferli. „Þetta var uppi í Fnjóskadal á mörgum stöðum, þetta var hér við Þverá, þetta var inn um allan Eyjafjörð. Áin flæddi yfir vegi á nokkrum stöðum, ræsi fylltust. Þannig að ég efast að menn hafi lent í svona hremmingum á svona litlu svæði eða á einni þjónustustöð.“