Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm hressandi poppneglur á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Aurora - Cure For Me

Fimm hressandi poppneglur á föstudegi

16.07.2021 - 15:00

Höfundar

Það er skandipopp og danstónlist í fimmunni að þessu sinni og boðið upp á nýtt efni frá norsku poppprinsessunum Aurora og Sigrid, auk þess er að finna nýja og sólríka slagara frá Chemical Brothers, Arlo Parks, Tycho og Ben Gibbard.

Aurora - Cure For Me

Lagið Cure For Me er tuttugasti og sjöundi söngullinn frá skandipopp-prinsessunni Aurora Aksnes sem er fædd á Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger, en Stavanger er fjórði stærsti bærinn í Noregi og þar rignir í tæplega 160 daga á ári. Lagið er það fyrsta sem við fáum að heyra af fjórðu plötu tónlistarkonunnar og er poppnegla.


Sigrid - Mirror (Kelly Lee Owens Remix)

Frá Stavanger förum við til smábæjarins Ålesund þar sem rignir töluvert meira en í Stavanger eða 269 daga á ári. Þaðan er Sigrid Solbakk Raabe sem sendi nýlega frá sér lagið Mirror. Hún fékk hina frábæru Kelly Lee Owens til að endurhljóðblanda lagið sitt en hún er frá smábænum Rhuddlan í Wales og þar er spáð mildu veðri næstu daga.


Chemical Brothers - Work Energy Principle

Frá Noregi förum við til Manchester sem kemst ekki einu sinni á topp tíu yfir þá staði sem rignir mest á í Englandi, en þaðan koma bræðurnir sem leysa vandann - Tom Rowlands og Ed Simons. Þeir voru að senda frá sér b-hliðina af sönglinu The Darkness That You Fear sem er teknóbomba í dansvænni kantinum.


Tycho & Benjamin Gibbard – Only Love

Frá Manchester förum við á vesturströnd Bandaríkjanna en þar er hitabylgja þessa dagana og ekki miklar líkur á rigningu á næstunni. Þar hittum fyrir þá Scott Hansen eða Tycho eins og hann kallar sig og Benjamin Gibbard úr Death Cab For Cutie og Postal Service. Þeir strákarnir eiga það sameiginlegt að hafa báðir verið útnefndir til Grammy-verðlauna en lagið sem þeir hafa gert saman heitir Only Love og kemur út á Ninja Tune.


Arlo Parks - Too Good

Frá Hammersmith í Lundúnum kemur síðan Arlo Parks en þar hefur veðurfar verið skráð síðan í lok sextándu aldar og spáð mildu veðri næstu daga. Too Good er nýjasta söngull og myndband af fyrstu plötu Arlo Parks Collapsed in Sunbeams sem hefur fengið frábæra dóma í flestum tónlistarmiðlum.


Fimman á Spotify