Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Eiffel-turninn opnaður á ný eftir níu mánaða lokun

16.07.2021 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Eiffel-turninn, þekktasta kennileiti Parísar, var opnaður á ný í dag eftir níu mánaða lokun vegna kórónuveirufaraldursins. Það er lengsti tími sem Eiffel-turninn hefur verið lokaður frá seinni heimsstyrjöldinni en hann var opnaður fyrst árið 1889. Eiffel er allra vinsælasti ferðamannastaður Frakklands og er með þeim fjölsóttustu í heiminum.

Fjöldatakmarkanir munu þó gilda í turninum en hann kemur til með að taka á móti 13 þúsund manns til að byrja með, eða helmingi þeirra gesta sem hann tók við áður.  Þetta kemur fram á fréttaveitu France 24 í dag. 

Gestir, 11 ára og eldri, skulu bera grímur í turninum en þann 21.júlí næstkomandi tekur einnig gildi ný fyrirskipun um svokallaða heilsupassa í Frakklandi. Þá skulu allir gestir framvísa neikvæðri niðurstöðu úr skimun eða bólusetningarvottorði eins og á öðrum opinberum stöðum þar í landi.