Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir fimmtíu látin í hamfaraflóðum - mikil eyðilegging

15.07.2021 - 20:10
Hermenn koma fólki til hjálpar á spítala Bad Neuenah í Þýskalandi í dag. - Mynd: EPA / EPA
Yfir fimmtíu hafa farist í Þýskalandi og átta í Belgíu í miklum flóðum frá því í gær. Tuga er saknað og fjöldi fólks í þessum tveimur löndum, ásamt Luxemborg og Hollandi, hefur þurft að yfirgefa heimili sín.

Grétar Amazeen, býr í Wuppertal í Þýskalandi, þar sem áin Wupper flæddi yfir bakka sína í nótt. „Ég áttaði mig á að staðan væri alvarleg um hálf eitt í nótt þá var ég vakandi og þá byrjuðu almannavarnasírenurnar að hringja. Þá vissi ég að það var eitthvað meira að gerast heldur en bara að flæða inn í einhverja kjallara,“ sagði Grétar í viðtali við fréttastofu í dag.

350.000 manns búa í Wuppertal, sem er í Norður Rín Vestfalinu. Grétar segir að þau í Wuppertal hafi þó sloppið nokkuð vel miðað við íbúa í borgunum í kring.  „Hagen, sem er um 15 kílómetrum í burtu, þar brast á sem rennur í Wupper, eftir því sem ég best veit, þar brustu einhverjar stíflur og hún fór algjörlega yfir bakka sína og þar hefur verið lýst yfir neyðarástandi og þar var herinn í nótt að hjálpa fólki.“

Í sambandsríkjunum Rínarlandi-Pfalz og Norður Rín Vestfalíu er staðan hvað verst og einnig í Liege í Belgíu, þar sem öllum borgarbúum var ráðlagt að yfirgefa heimili sín.

epa09345782 The entire village of Schuld in the district of Ahrweiler is destroyed after heavy flooding of the river Ahr, in Schuld, Germany, 15 July 2021. Large parts of Western Germany were hit by heavy, continuous rain in the night of 14 July, resulting in local flash floods that destroyed buildings and swept away cars.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
Frá þýska þorpinu Schuld, sem gjöreyðilagðist í flóðunum um miðjan júlí.  Mynd: EPA-EFE - EPA

 

Ólafur Jóhann Sigurðsson hefur staðið í ströngu í dag en hann er bæjarfulltrúi í Roodt-sur-Syre, tæplega tvö þúsund manna sveitarfélagi í Luxemborg. „Í sveitarfélaginu hjá okkur erum fimm þorp. Í fjórum þeirra er mikið vatn á götunum og það flæðir vatn í gegnum kjarnann á þessum þorpum. Þótt að þetta sé aðallega til trafala hjá okkur þá er það þannig að í öðrum bæjum þá er þetta mikill skaði, það er mikið af fólki sem hefur misst heimili sín tímabundið sennilega,“ segir hann. 

Búið er að rýma tvo bæi í Luxemborg og skemmdirnar eru miklar enda er þetta ekki tært vatn sem flæðir um dali og bæi. „Þetta er brún drulla, þetta er eins og málað á veggina og það er agalega erfitt að þrífa þetta. Þetta er sorp og þetta er skólp það kemur allt upp úr grunnvatninu. Það er í þessu olía, það er í þessu díselolía, bensín, þetta er alveg hrikalegur fnykur af þessu. Þetta er mikið tjón og þetta á eftir að taka langan tíma að laga þetta.“