„Það er bara enginn að hlusta“

Mynd: Aðsend / Sólborg Guðbrandsdóttir

„Það er bara enginn að hlusta“

15.07.2021 - 15:14

Höfundar

„Þessi mál sem hafa verið að koma upp af þekktum einstaklingum sýna okkur að það geta allir beitt ofbeldi og þetta er rosalega útbreitt vandamál í samfélaginu,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir, söngkona og aðgerðasinni. Nýverið leiddi hún starfshóp sem skilaði af sér skýrslu um hvað sé hægt að gera til að bæta kennslu fyrir ungmenni varðandi kynheilbrigði og ofbeldisvarnir.

Sólborg Guðbrandsdóttir hefur verið áberandi undanfarin ár fyrir að beita sér fyrir heilbrigðum samskiptum, kynheilbrigði og ofbeldisvörnum. Hún stofnaði til að mynda Instagram-síðuna Fávitar, sem var með á fjórða tug þúsunda fylgjenda, og hefur farið í fjölda skóla og rætt við krakka og unglinga. Nýverið lauk hún við sex mánaða vinnu fyrir menntamálaráðherra þar sem hún fór fyrir hópi sem skilaði af sér skýrslu með tillögum um markvissa kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisvarnir í grunn- og framhaldsskólum.  

Þúsundir frásagna af ofbeldi 

„Þegar ég lít til baka held ég að ég hafi fengið nokkur þúsund sögur af ofbeldi á Íslandi, og mest allt frá ungu fólki,“ segir Sólborg í viðtali við Gunnar Hansson og Margréti Blöndal í Sumarmálum á Rás 1. „Ég reyndi eins og ég gat að taka við þessu og birta,“ segir hún. Sólborg hélt úti Instagram-reikningi í 6 ár þar sem hún varpaði ljósi á kynferðisofbeldi og áreitni á internetinu. Síðuna Fávitar byrjaði hún með 19 ára gömul í kjölfar fjölda viðurstyggilegra skilaboða sem hún hafði fengið á samskiptamiðlum. „Ég vildi sýna hvað væri að gerast á bakvið skjáinn í samskiptum fólks,“ vegna þess hve venjulegt slíkt ofbeldi er talið. Það sé gengist við því að fólk sé áreitt kynferðislega á netinu.  

Undanfarin ár hefur Sólborg beitt sér fyrir því að fræða ungmenni um heilbrigð samskipti og kynheilbrigði. Á þremur dögum tók hún saman hátt í 300 sögur af kynferðisofbeldi þar sem bæði gerendur og þolendur voru börn og sendi á dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. „Þar sem gerendur eru líka börn, ef það sýnir okkur ekki hve mikilvægt það er að við bjóðum upp á fræðslu um heilbrigð samskipti þá veit ég hvað.“ 

Fékk nóg af aðgerðaleysi  

Fyrir jólin í fyrra fékk Sólborg nóg af því að kynfræðsla væri ekki aukin í skólakerfinu svo hún hvatti fylgjendur sína, sem þá voru 32 þúsund talsins, að senda mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur, tölvupóst og nefna við hana hvers vegna þau vildu breytingar.  

Þrýstingurinn á ráðherra hafði tilætluð áhrif. Lilja boðaði Sólborgu á fund og úr varð þessi starfshópur sem nú á dögunum skilaði af sér skýrslu með tilmælum um hvað sé hægt að gera til að bæta kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisvarnir í skólakerfinu. „Við erum á þessum stað í dag að það er ekki hægt að kenna þetta efni bara í einum og einum samfélags- eða náttúrufræðitíma eftir hentisemi kennara og skólastjórnenda,“ segir Sólborg. Hún segir að kynfræðslu þurfi að kenna markvisst í gegnum alla skólagönguna, byggja ofan á fyrri þekkingu og miða út frá aldri og þroska að hverju sinni.  

Starfshópinn skipa tólf sérfræðingar úr hverju horni samfélagsins, til dæmis frá Embætti landlæknis, Kennarasambandinu, Háskóla Íslands og Stígamótum. Sólborg segir þessa ólíku reynslu þeirra hafa gagnast vel í þessum hópi og sýna fram á hve samfélagslegt þetta verkefni þurfi að vera. „Þetta þarf að vera markvisst, alhliða og alls staðar.“ 

Kynfræðsla verði að skyldufagi

Í skýrslunni kemur til að mynda fram að kynfræðsla skuli vera gerð að skyldufagi fyrir öll börn á Íslandi og byrji í upphafi grunnskólagöngunnar. „Þá er ekki verið að meina samfarafræðsla í fyrsta bekk. Heldur gengur kynfræðsla út á að læra á líkama sinn, hvernig hann virkar og hvað hann heitir.“ Þá verði ólíkar fjölskyldugerðir kenndar og til dæmis að ekki þurfi að knúsa bekkjarfélagana ef barnið vill ekki knúsa og slíkt. „Þetta er hægt að kenna í fyrsta bekk, svo er hægt að byggja markvisst ofan á þetta.“ 

Þau vilji sjá skólahjúkrunarfræðinga í framhaldsskólum og að sérstakur áfangi verði kenndur í kennaramenntun sem snúi að kynheilbrigði. „Kennarar þurfa líka aðhald og utanumhald, fá kennslu í að kenna slíka hluti.“ Einnig sé mikilvægt að fagfólk fái starfsþróun, eða endurmenntun. „Það er ekki hægt að kenna þetta einu sinni og þá er það komið, samfélagið er í sífelldri þróun og kennsla þarf að vera í takt við tíðarandann.“ 

Viðbragðsáætlanir þurfi að vera til staðar þegar, ekki ef, ofbeldi kemur upp innan veggja skólanna. Mikilvægt sé að starfsfólk viti hvernig skuli bregðast við slíkum aðstæðum á réttan hátt.  

Kennsla þurfi að gera ráð fyrir fjölbreytileikanum og vera fyrir öll börn. Tryggja þurfi að enginn fari á mis við kynfræðslu, líkt og fatlaðir nemendur eða nemendur með annað móðurmál en íslensku. Sólborg segir að borið hafi á því að fatlaðir nemendur séu teknir út fyrir hópinn þegar fyrirlesarar koma í skólana og fái því jafnvel aldrei slíka kennslu í gegnum alla skólagönguna. Þá þurfi að tryggja að kennsla sé jöfn á landsvísu, það megi ekki verða þannig að ef barn býr á ákveðnum stað fái það ekki kynfræðslu.  

„Við erum kerfið“ 

Sólborg segir það ótrúlegt og svekkjandi að eftir umræðu undanfarinna vikna og mánaða, þar sem kynferðisofbeldi hefur verið rætt á rosalega opinskáan hátt, komi ekki róttækari og harðari viðbrögð frá stjórnvöldum. „Þegar þessar bylgjur koma erum við ekki í einhverju neyðarástandi,“ segir hún og telur það sýna skýrt fram á hvernig við sem samfélag tökum kynferðisofbeldi sem „eðlilegum“ hlut.  

„Það kann enginn að ræða kynferðisofbeldi, eða fæðist sérfræðingur í því. Ef við kunnum þetta ekki þá held ég að við þurfum allavega að reyna það,“ segir Sólborg og bætir við að hún hafi ekki heldur kunnað að tala um slíka hluti í byrjun. „Ég var bara í stöðu þar sem ég neyddist til þess, svo lærir maður bara smám saman.“ 

Sólborg segist hafa hlustað á fjölda viðtala við sérfræðinga í þessum málefnum þar sem undantekningalaust sé talað um að bæta þurfi fræðsluna innan skólakerfisins. „Ég skil ekki af hverju það er alltaf verið að segja að breytingar taki tíma. Maður heyrir þessa tuggu aftur og aftur en við erum kerfið og getum alveg breytt þessu hraðar ef við viljum.“ Hún segist gera sér grein fyrir að fylgja þurfi lögum og reglum, en það sé betra að byrja í dag fremur en að bíða fram á morgun.  

Ungt fólk vill fræðslu  

„Ungir krakkar eru búnir að óska eftir kynfræðslu í áratugi og það er bara enginn að hlusta,“ segir Sólborg og furðar sig yfir því að það hafi þurft tvær Metoo-bylgjur til þess að samfélagið taki við sér. „Eigum við þá að bíða í áratug í viðbót eða eftir annarri bylgju? Hvað þurfa margir að verða fyrir ofbeldi áður en við raunverulega komum þessu í gegn?“ 

Sólborg segir unga fólkið í dag vera umburðarlynt gagnvart fjölbreytileikanum og ekki tilbúið að sætta sig við samfélag þar sem fólk kemst upp með ofbeldi. „Ég heyri það á þeim að þau eru búin að sækja sér fræðslu annars staðar en innan skólakerfisins,“ en þau ræði sín á milli og hlusti á sögur annarra, þau vilji nefnilega fræðast.  

Allir geta beitt ofbeldi 

„Þessi mál sem hafa verið að koma upp af þekktum einstaklingum sýna okkur að það geta allir beitt ofbeldi og þetta er rosalega útbreitt vandamál í samfélaginu,“ segir Sólborg og telur umræðu liðinna vikna sýna uppgjöf fólks yfir aðgerðarleysinu og réttarkerfinu sem grípur ekki þolendur eins og það ætti að gera.  

„Við þurfum á næstu árum og áratugum að gefa okkur tíma til að, í fyrsta lagi koma í veg fyrir að fólk verði gerendur, en líka að reyna að skilja og búa til úrræði fyrir þá sem verða gerendur. Til að koma í veg fyrir að þeir haldi áfram að vera það, og einhvern veginn aðstoða við það.“ 

Á síðu 112.is er  hægt að fá beint samband við neyðarvörð í netspjalli, sem og á 1717.is og Heilsuveru. Auk þess má þar finna mikið af upplýsingum til barna og ungmenna gegn ofbeldi.  

Rætt var við Sólborgu Guðbrandsdóttur í Sumarmálum á Rás 1. Hægt að er hlýða á viðtalið í heild sinni hér. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Reynir að vera sterk þegar aðrir geta það ekki

Tónlist

Fávitar loksins komnir út á bók

Menningarefni

„Ég býðst til að afhjúpa þig vinur minn“