Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur fólk hafa áttað sig eftir smittölur síðustu daga

Mynd: RÚV / RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir smitrakningu ganga ágætlega. Hann segir fólk almennt hafa skilning á að það þurfi að fara í sóttkví.

Víðir segir hundruð vera á lista smitrakningarteymisins og verið sé að greina hverja þurfi að senda í sóttkví og hverja ekki.

Hann segir skilning vera að aukast að nýju á mikilvægi sóttkvíar, til að byrja með hafi gengið erfiðlegar að útskýra það fyrir fólki. 

„Fólki finnst það vera alveg öruggt þegar það er bólusett og á erfitt með að skilja að það þurfi að fara í sóttkví. Tölur síðustu daga hafa kannski kveikt þetta ljós að menn átta sig á að bólusetningin er ekki 100% og ef þú ert útsettur geturðu smitast.“

Bæjar- og útihátíðir eru framundan og Víðir segir útilokað að setja gesti heillar hátíðar í sóttkví. 

„Ég held það sé rétt að reyna að standa okkur í því að miðla upplýsingum eins hratt og við getum. Ég held að vikan núna muni segja okkur margt þannig að mjög líklega munum við verða aftur á svipuðum tíma í næstu viku.“

Það verður náttúrulega ekki hægt og það er náttúrulega þessi áskorun sem við stöndum frammi fyrir núna. Við sjáum bara þessa skemmtistaði þar sem við höfum séð smit.

Víðir segir útilokað að setja allan skemmtistaðinn í sóttkví. „Heldur þurfum við að reyna að fá fólk sem hefur verið þar að vera mjög meðvitað um að fái það minnstu einkenni að fara í sýnatöku. Og gæti sín núna í framhaldinu og það sama verður auðvitað með þessa þætti.“

Hann segir viðbúið að upplýsingafundur verði haldinn aftur í næstu viku þar sem farið verði yfir stöðuna og reynslu vikunnar.