Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ný nöfn á 500 stoppistöðvar Strætó

15.07.2021 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Yfir 500 stoppistöðvar Strætó skipta um nafn í næsta mánuði. Stöðvarnar sem um ræðir bera í dag flestar löng nöfn og eru gjarnan kenndar við tvær götur. Með breytingunni á að auka læsileika á skiltum og skjám auk þess að gera þau meira lýsandi en áður.

„Það hefur staðið til að gera þetta í mjög langan tíma en þetta hefur alltaf dottið upp fyrir,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.

Nú vinnur Strætó að nýrri upplýsingahönnun, útliti korta og tímataflna og nýrri vefsíðu í samstarfi við borgarlínuverkefnið. „Við vorum því í algjöru dauðafæri að gera þetta loksins,“ segir Guðmundur.

Með breytingunni verða nöfn fjölmargra stöðva einfölduð og í því markmiði að þau verði í leiðinni meira lýsandi. 
Stöðvum sem kenndar eru við tvær götur er nær útrýmt og nöfnunum skipt út fyrir viðeigandi kennileiti. 

Sem dæmi um breytingu má nefna að stoppistöðin Sæbraut/Vitastígur fær nafnið Sólfarið; Nauthólsvegur/Natura fær nafnið Öskjuhlíð; Hofsvallagata/Hávallagata fær nafnið Landakot; og Menntaskólinn í Reykjavík/MR verður einfaldlega þekkt sem MR.

En er ekki dýrt að ráðast í svona breytingar?

Það vill Guðmundur ekki meina. „Við erum með starfsmenn sem fara reglulega og skipta út biðstöðvartöflum þegar breytingar eru gerðar á leiðarkerfi og sá kostnaður ætti ekki að vera verulegur,“ segir Guðmundur.

Þó verður einhver kostnaður við skiltaútskipti og uppfærslu á tölvukerfum. 

Breytingarnar taka gildi sunnudaginn 15. ágúst, en þá tekur vetraráætlun Strætó gildi.

 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV