Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nauðsyn að draga úr álaginu frá landamærunum

Mynd: RÚV / RÚV
Sóttvarnalæknir kveðst ætla að halda að sér höndum varðandi nýjar aðgerðir vegna aukningar smita undanfarið. Brýnt sé þó að minnka álagið frá landamærunum.

Tíu smit greindust í gær, helmingur bólusett fólk utan sóttkvíar. Fjölgun smita má rekja til landamæranna og fjölmennis á skemmtistöðum.

Vill sjá mátt útbreiddrar bólusetningar til varna

Á upplýsingafundi almannavarna í morgun sagði Þórólfur Guðnason fyllstu ástæðu til áhyggna en að engar tillögur um hertar aðgerðir lægju fyrir. Hlutirnir gætu þó breyst hratt. 

„Ja það sem ég held að sé nauðsynlegt að gera núna er að einhvern veginn að minnka álagið yfir landamærin af veirunni þannig að álagið hér innanlands verði minna.“

Þórólfur telur rétt að staldra aðeins við. „Ég held við þurfum að hinkra og sjá hvort þessi útbreidda bólusetning sem við höfum náð, hvort að hún nái ekki viðunandi viðspyrnu hérna innanlands þannig að við þurfum ekki að fara í miklar takmarkanir hérna innanlands.“

Það geti þó breyst og tími til aðgerða sé ekki grafinn í stein. Alvarleg einkenni komi ekki fram fyrr en einni til tveimur vikum síðar. Þá geti árangur af aðgerðum orðið minni.

Fjölmennar hátíðir áhyggjuefni

Þórólfur segist hafa nokkrar áhyggjur af útihátíðum.

„Það þarf ekki mikið ímyndunarafl að sjá fyrir sér hvað geti gerst þegar nokkrir smitaðir einstaklingar eru á stórum stað þar sem fleiri þúsund manns eru og að velkjast hver innan um annan. Þá getur orðið auðveld smitleið en þannig er það bara.“

Þórólfur vonast til að umfangsmiklar bólusetningar hérlendis hafi tilætluð áhrif. „Við erum að bólusetja eins marga og við getum. Og við erum að bíða og vona að sú bólusetning muni hindra eins mikið smit og hægt er.“ 

Ekki ástæða til að kalla öll 12 til 15 ára börn í bólusetningu

Sóttvarnalæknir segir ekki ástæðu til að kalla öll börn á aldrinum tólf til fimmtán ára inn til bólusetningar. 

„Það hefur ekkert verið ákveðið. Við höfum talað um að á þessari stundu sé ekki ástæða til að kalla inn öll börn á aldrinum tólf til sextán ára. En við höfum kallað inn börn sem eru með undirliggjandi áhættuþætti, undirliggjandi sjúkdóma.“

Aðspurður segir Þórólfur ekkert bóluefni hafa markaðsleyfi fyrir yngri aldurshópana.

Talað hefur verið um að foreldrar geti komið með börn sín í bólusetningu, óski þau eftir því. Nokkur tími sé þó uns það kemur til framkvæmda. „En það myndi ekki koma til framkvæmda fyrr en seinni partinn í ágúst.“