Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mögulegt sóttkvíarbrot á Djúpavogi

15.07.2021 - 18:07
Mynd með færslu
Viking Sky í höfn á Seyðisfirði Mynd: Seyðisfjarðarhöfn - Kristján Kristjánsson
Mögulegt sóttkvíarbrot átti sér stað á Djúpavogi í dag þegar skemmtiferðaskip, þar sem allir um borð áttu að vera í sóttkví, lagðist að bryggju í bænum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.

Farþegar, sem höfðu ekki leyfi til að yfirgefa skipið, fóru frá borði en glöggir íbúar bæjarins áttuðu sig á að þarna væri á ferðinni skip sem hefði ekki leyfi til að hleypa farþegum frá borði. Allir um borð í skipinu eru bólusettir en smit greindist hjá einum farþeganna í fyrradag.

Litlar líkur eru taldar á að íbúar Djúpavogs hafi orðið útsettir fyrir smiti og þurfa því ekki að fara í sóttkví en aðgerðastjórn hvetur íbúa, verslunareigendur og þjónustuaðila að huga áfram að sóttvörnum. 

Fyrr í dag var greint frá því að farþegi um borð í skemmtiferðaskipinu Viking Sky hefði greinst með kórónuveiruna en skipið lá þá við bryggju á Seyðisfirði.  Starfsfólk skemmtiferðaskipsins sá sjálft um smitrakningu og aðeins hluti farþega var sendur í sóttkví.