Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íbúafundur vegna aurskriðunnar í Varmahlíð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúar níu íbúðarhúsa í Varmahlíð hafa óskað eftir að sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar haldi með þeim fund og veiti upplýsingar um stöðu mála í kjölfar aurskriðunnar sem þar féll í lok júní.

Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar í gær var lagður fram tölvupóstur frá íbúum eftirtalinna fasteigna í Varmahlíð; Laugavegi 11, 13, 15 og 17, Laugahlíð, Úthlíð og Norðurbrún 3, 5 og 9.

„Varðar erindið íbúafund sem haldinn var í Varmahlíð þann 7. júlí s.l. vegna aurskriðu sem féll í Varmahlíð 29. júní s.l.,“ segir í bókun byggðarráðs. „Óska bréfritarar eftir því að sveitarstjórnin komi til fundar við íbúana og veiti upplýsingar um stöðuna ekki síðar en 14 dögum frá dagsetningu bréfsins. Einnig er farið fram á að tryggt sé að þeir fái að fylgjast með ástandinu á hverjum tíma og fái upplýsingar um hvaða áætlun sveitarfélagið hefur til að bregðast við þessu ástandi.“

Byggðarráð Skagafjarðar samþykkti á fundinum að haldinn yrði fundur í næstu viku með íbúum Varmahlíðar.