Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ferðalög starfsmanna teljist vinnutími

Mynd með færslu
Úr húsakynnum EFTA-dómstólsins. Mynd: EPA
Sá tími sem fer í ferðalög starfsmanna utan hefðbundins vinnutíma til áfangastaða í vinnuferðalögum skal teljast sem vinnutími. Ekki er nauðsynlegt að meta í hve miklum mæli vinna fer fram meðan á ferðunum stendur.

Þetta segir í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna máls sem Eyjólfur Orri Sverrisson, starfsmaður Samgöngustofu, höfðaði á hendur íslenska ríkinu.

Eyjólfur Orri ferðaðist tvívegis úr landi vegna starfa sinna fyrir Samgöngustofu. Hann fór til Ísraels til að annast skráningu flugvélar Icelandair og til Sádí-Arabíu vegna úttektar á línustöð og tveimur flugvélum flugfélagsins Air Atlanta.

Eyjólfur hafði aðeins fengið greitt fyrir dagvinnu þessa daga. Hann krefst þess hins vegar að fá greitt fyrir þann tíma sem hann var á ferðalagi, þ.e. á leið til og frá áfangastað.

Málið er rekið með stuðningi Flugvirkjafélagsins en það er fordæmisgefandi fyrir ferðir samstarfsmanna hans.

Í túlkun sinni, sem Páll Hreinsson forseti dómstólsins skrifar undir, leit EFTA-dómstóllinn til tilskipunar Evrópusambandsins um réttindi og aðbúnað á vinnustað.

Bent er á að hugtakið „vinnutími“ sé í tilskipun skilgreint sem sá tími sem starfsmaður er við störf, er vinnuveitanda innan handar og innir af hendi störf sín eða skyldur í samræmi við innlend lög eða venju.

Vísað er í fyrri dóma EFTA-dómstólsins, sem áður hefur komist að þeirri niðurstöðu að ferðir sem starfsmaður fer í til að sinna verkefnum vinnuveitanda utan fastrar starfstöðvar séu nauðsynlegur og óhjákvæmilegur þáttur þess að starfsmaðurinn sinni verkefnum sínum samviskusamlega. Sambærilegt mál hefur meðal annars komið upp í Noregi.

Enn í meðförum héraðsdóms

Sem fyrr segir hefur EFTA-dómstóllinn ekki úrskurðað í málinu, heldur aðeins veitt álit sitt á hvernig túlka beri tilskipun Evrópusambandsins.

Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur en Arnar Þór Jónsson héraðsdómari og þingframbjóðandi, er dómari í málinu. 

Lögmaður Eyjólfs Orra óskaði í mars í fyrra eftir því að héraðsdómur leitaði ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum, en dómari hafnaði því. Var þeim úrskurði skotið til Landsréttar, sem úrskurðaði að héraðsdómur skyldi leita álitsins.

Eyjólfur óskaði árið 2019 eftir því að Arnar Þór viki sæti sínu sem dómari í málinu þar sem efast mætti um óhlutdrægni hans. Að mati Eyjólfs væri ljóst að verulega myndi reyna á EES-rétt í málinu og vilji Arnars stæði ekki til þess að EES-réttur gilti á Íslandi.

Arnar Þór hefur í ræðu og riti lýst yfir áhyggjum af meintu valdaframsali Íslands til stofnana Evrópusambandsins og sagt að EES-samningurinn hafi reynst umfangsmeiri en gert var ráð fyrir árið 1994, með íþyngjandi ákvörðunum fyrir íslenska ríkisborgara og lögaðila.

Dómarar úrskurða sjálfir um eigið vanhæfi og hafnaði Arnar Þór kröfunni. Sagði hann að engin goðgá gæti talist að benda á hið augljósa og enn fremur að dómurum bæri alltaf að dæma á grundvelli laganna.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV