Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rafmagnsleysi vegna eldinga í Noregi

14.07.2021 - 16:24
Erlent · Noregur · Evrópa · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Nokkur þúsund heimili í Austur-Noregi eru án rafmagns eftir að mikið eldingaveður gerði þar síðdegis. Veðurstofan hafði sent út viðvörun um þrumur og eldingar í dag. Á einni klukkustund, frá klukkan hálf þrjú, sýndu mælar yfir sjö þúsund eldingar og einni stund síðar voru þær orðnar fleiri en ellefu þúsund.

Vegna þessa var fólki ráðlagt að taka raftæki úr sambandi, vera ekki á ferð á sléttlendi eða nálægt trjám og bíða með að fara í bað. Úrhellisrigning fylgir þrumuveðrinu. Því var fólki ráðið frá að vera á ferð í bílum sínum vegna hættu á skyndiflóðum. Klukkan hálf fimm í dag að staðartíma voru yfir þrjú þúsund viðskiptavinir hjá Elva raforkusölunni án rafmagns í austurhluta Noregs. 

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV