Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óhjákvæmileg fjölgun smita fylgir fjölgun ferðamanna

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson
Íslensk erfðagreining vinnur að raðgreiningu fimm smita sem greindust í gær. Kári Stefánsson, forstjóri, segir fjöldann sem kemur núna yfir landamærin slíkan að búast megi við talsverðum fjölda smitaðra dag hvern.

Smitin sem komið hafa upp undanfarna daga tengjast skemmtanalífinu og fjölmennum fjölskyldu- og vinaviðburðum. Kári segir að stökkbreytt delta-afbrigði, sem greindist hér í fyrradag, verði ekki rakið til annarra smita sem hér hafa greinst áður. 

Vont ef veiran berst með mörgum en gott ef þeir smita ekki marga 

„Nú ef þeir eru allir með sama afbrigðið af veirunni þá bendir það til þess að um sé að ræða einn atburð. Að veiran hafi komist inn í landið með einhverjum einum einstakling. Ef þetta eru allt saman ótengdar veirur bendir það til þess að veiran sé að flæða meira yfir landamærin.“

Kári segir að líta megi á það með tvennum hætti. „Annars vegar að það sé vont að veiran sé að berast með svona mörgum yfir landamærin en það sé gott að þeir séu allavega ekki að smita mikið út frá sér.“

Ein þeirra hugmynda sem upp hefur komið er að bólusettir framvísi neikvæðu PCR-prófi frá útlöndum. Kári segir að á meðan skimað var við landamærin hafi fundist smit hjá 0,1 prósenti bólusetts fólks. 

„Þá er fjöldinn sem kemur til landsins orðin slíkur að það má reikna með að það komi tíu manns á dag, bólusettir og smitaðir.“  Það þýði þó ekki að hver og einn smiti fleiri en áður, með öðrum orðum að smitstuðull hækkar ekki. 

Ástæða þess sé hve margir eru bólusettir hér á landi. Fjöldinn gæti skapað lítil hópsmit hér og hvar.  „Vegna þess að hér yrði töluvert mikið um smit og það reynir á þá vörn sem fæst af bóluefnunum,“ segir Kári Stefánsson.

Hann segir að viðkvæmir hópar geti verið í töluverðri hættu vegna smitaðra bólusettra sem beri það mikið veirumagn að þeir smiti auðveldlega út frá sér. 

Telur enn nokkuð í að lífið verði algerlega eðlilegt

Kári segir enn nokkuð í land þar til Íslendingar geti sagt að líf sé hér algerlega komið í eðlilegt horf. Hið sama eigi við um öll Vesturlönd.

„Við erum ekki eyland, ekki lengur. Við erum í linnulausum samskiptum við umheiminn. Meðan þau samskipti eru ekki orðin eðlileg, meðan þau eru ekki orðin frjáls eigum við eftir svolitla ferð.“

Kári segir erfitt að meta hve lengi faraldurinn muni vara áfram. Illa hafi gengið að dreifa bóluefni meðal fátækari landa, og það muni bitna á öllum. „Þá eru gömlu nýlenduherrarnir að hlúa að sjálfum sér fyrst og fremst.“

Bergmál sögunnar ómar en Kári segir gæðum heimsins misskipt. „Þó svo að á Vesturlöndum verðum við kannski komin að nokkru leyti á góðan stað þegar kemur fram á haust þá er ansi mikil hætta á því að þriðji heimurinn þurfi svolítið lengri tíma.“

Kári sagðist fyrr á árinu vonast til að nægilega margir væru orðnir bólusettir til að aflétta öllum takmörkunum þann 13. október. Hann kveðst mögulega þurfa að endurskoða þá hugmynd.

„Þannig að kannski ég þurfi enn einu sinni að sætta mig að hafa rangt fyrir mér að það verði að spá fyrir um að þetta verði komið í eðlilegt horf 13. október á næsta ári.“

Fréttin var uppfærð klukkan 15:58.