Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Minnir óþægilega mikið á byrjunina á þriðju bylgjunni“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að þau smit sem greinst hafa nú síðustu daga megi rekja til skemmtanalífs á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir stöðuna nú minna óþægilega mikið á það hvernig þriðja bylgja faraldursins hófst hér innanlands í fyrra. Hann hvetur hjúkrunarheimili og sjúkrastofnanir til þess að skerpa á sínum reglum er varðar umgengni gesta.

Fimm greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær, allir utan sóttkvíar. Í gær var svo greint frá því að tvö smit hafi greinst innanlands, án rekjanlegra tengsla við landamæri. Annar hinna smituðu hafði sótt skemmtistaði á höfuðborgarsvæðinu um liðna helgi. Þau smit eru af hinu smitandi delta-afbrigði.

„Við vitum það ekki varðandi það sem greindist í gær, en það sem greindist í fyrradag var delta-afbrigði, nýtt afbrigði sem ekki hefur greinst hér áður,“ segir Þórólfur, og telur að rúmlega hundrað manns þurfi að fara í sóttkví eins og staðan er núna en rakning stendur enn yfir.

Hann segir erfitt að meta það hvort þetta sé upphafið að nýrri bylgju.

„Þetta minnir óþægilega mikið á byrjunina á þriðju bylgjunni, ég verð að segja það. En munurinn er samt sem áður sá er að nú erum við búin að bólusetja mjög marga á meðan enginn var bólusettur þegar þriðja bylgjan kom. Þannig að ég vona að það verði ekki sama uppsveifla og þá,“ segir Þórólfur, og hvetur fólk til að vera á varðbergi.

„Ég held að það sé ástæða núna til að hvetja alla viðkvæma einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og eins hjúkrunarheimili og sjúkrastofnanir, til þess að vera á varðbergi og skerpa á sínum umgengisreglum núna á meðan við erum að sjá þessa uppsveiflu.“

Bólusett fólk frá útlöndum getur borið smit í nærumhverfi 

Þórólfur segir að enn sem komið er sé ungt fólk að smitast með væg einkenni, en stóra spurningin sé hvort veiran fari að valda alvarlegum veikindum hjá viðkvæmum hópum. Hann segir ekki koma á óvart að smitin greinist að hluta hjá þeim sem eru bólusettir.

„Við höfum alltaf vitað að bólusetningin er ekki 100%. Hún er góð í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi en bólusett fólk getur tekið veiruna og fengið væg einkenni, eða jafnvel verið einkennalaust. Þannig þetta kemur ekki á óvart en þetta vissulega setur aðeins strik í reikninginn. Það kemur ákveðið bakslag í þetta, þannig séð, en þetta er ekki óviðbúið,“ segir Þórólfur.

Innanlandssmitin eru hjá Íslendingum, en þeir hafa einnig greinst í landamæraskimun.

„Flest af þessum tilfellum hér innanlands eru Íslendingar en þeir sem eru að greinast á landamærunum eru bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn. Auðvitað er það þannig að Íslendingar sem eru að koma frá útlöndum eru líklegri til að bera veiruna í sitt nærumhverfi hér innanlands heldur en útlendingar og það er eitthvað sem við þurfum að skoða líka vel. Við erum búin að opna landmaærin meira þannig fólk er að koma inn með veiruna, jafnvel þó það sé bólusett,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.